He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir að kínversk flugfélög á borð við Juneyao og Air China séu virkilega að skoða möguleika um beint flug á milli landanna tveggja. Flugin gætu hafist innan nokkurra ára en sendiherrann vill sjá þau hefjast fyrr.

Þetta kom meðal annars fram á hádegisfundi sem kínverska sendiráðið hélt fyrr í dag fyrir blaðamenn.

Sendiherrann fundaði í síðustu viku með Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, þar sem bein flug voru meðal annars rædd. Þar sagði Guðmundur að stór hluti þeirra ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll séu Kínverjar og vill Isavia styrkja tengsl sín við kínversk flugfélög.

„Umræðurnar hafa verið í fullum gangi á þessu ári og ég veit að það er verið að skoða möguleikana með nokkur mismunandi flugfélög. Flugin gætu verið milli Keflavíkur og Shanghai eða Peking. Air China flýgur aftur á móti frá mörgum flugvöllum og að mínu mati myndi ég vilja sjá meiri samkeppni,“ segir sendiherrann.

Bein flug voru seinast rædd rétt fyrir heimsfaraldur en þá var kínverska flugfélagið Juneyao við það að hefja sölu á flugferðum frá Shanghai til Keflavíkur með millilendingu í Helsinki. Covid kom hins vegar í veg fyrir þau áform en gert var ráð fyrir tveimur flugferðum á viku allan ársins hring.

„Margir spyrja nú hvenær þetta gæti orðið að veruleika. Sumir segja fimm ár, aðrir segja þrjú ár. Svarið mitt við því er að við ættum að vera bjartsýnni og við ættum að vinna harðar að því að láta þetta gerast fyrr frekar en seinna.“