Fréttablaðið geispaði golunni á dögunum. Endalokin voru fyrirsjáanleg þegar tilkynnt var um að blaðinu yrði ekki lengur dreift í heimahús. Öllum hefði mátt vera ljóst að dreifing dagblaðs sem í flestum tilfellum kæmi fólki fyrir augun seinnipart dags myndi ekki skila árangri.

Þrátt fyrir að Fréttablaðið hafi vissulega markað djúp spor í íslenska fjölmiðlasögu á sínum starfstíma verður að viðurkennast að blaðið hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin misseri. Það tók sér sterkari mynd málgagns Viðreisnar á síðari tímum og það mótaði svo efnistök og að lokum undirtektir. Því fór sem fór.

Eigi að síður var margt ágætt gert á Fréttablaðinu fram til síðasta útgáfudags. Má þar nefna umfjöllun um íþróttir sem var alltaf til mikillar fyrirmyndar hjá blaðinu og annað mannlífsefni. En eins og komið hefur verið inn á þessum vettvangi með reglulegu millibili undanfarin misseri var fréttaflutningur blaðsins oft á tíðum vafasamur. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að sá sem þetta skrifar telur hugmyndina um óháða fjölmiðlun ekki standast skoðun. Fjölmiðlar hafa skoðanir og við það er ekkert að athuga. Allar ákvarðanir sem teknar eru um framsetningu umfjöllunar fréttamála eru í eðli sínu gildishlaðnar: Það að tekið sé viðtal við einn en ekki annan, myndbirtingar og áherslur í fyrirsögnum og þar eftir götunum.

Það eina sem skiptir máli í þessum efnum er að lesandinn átti sig á þessari grundvallarstaðreynd. Jim gamli Hacker útskýrði þetta ágætlega í þáttunum Yes Prime Minister þegar hann útskýrði fyrir Humphrey og Wolley hverjir það væru sem læsu blöðin:

Þú þarft ekki að útskýra fyrir mér hver lesendahópur blaðanna er. Daily Mirror er lesinn af fólki sem heldur að það stjórni þjóðfélaginu. Guard-
ian er lesið af fólki sem finnst að það ætti að stjórna þjóðfélaginu. Lesendur The Times stjórna raunverulega landinu. Fólkið sem les Financial Times á þjóðfélagið. The Morning Star er lesið af fólki sem heldur að annað ríki eigi að stjórna Bretlandi og lesendur The Daily Telegraph telja að þannig sé í pottinn búið.

Humphrey spyr reyndar um lesendur The Sun í kjölfarið en Wolley svarar umsvifalaust að þeim sé sama um hver stjórni landinu svo lengi sem hún er brjóstgóð. En það er önnur saga. Það sem máli skiptir er að það er ekkert athugavert við að blöð hafi skoðanir og áhugamál. Þannig var ekkert athugavert við að Fréttablaðið sýndi hugðarefnum Viðreisnar mikinn áhuga í fréttaflutningi. Og það sama gildir um fasta penna blaðsins. Þannig hlakkar undirritaður mikið til að fjárfesta í bókaröð sem inniheldur öll skrif alþjóðlega kaupsýslumannsins Ole Antons Bieltvedt um kosti upptöku evru í Fréttablaðinu undanfarin ár – öll sextán bindin meira að segja.

En það breytir ekki þeirri staðreynd að fjölmiðill með skoðanir þarf að gæta að vinnubrögðum sínum. Undir lok Fréttablaðsins var Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, getið í nánast hverri frétt eða þá annarra þingmanna flokksins. Lesendur sjá auðvitað gegnum þetta og það grefur undan trúverðugleika blaðsins. Þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir að Fréttablaðið kemur ekki lengur út. Með öðrum orðum blaðið féll vegna lélegrar blaðamennsku og ofmats stjórnenda á erindi vel stæðs fólks úr Garðabænum sem ekki hefur notið þess framgangs innan Sjálfstæðisflokksins sem það óskaði sér.

***

Þar með er ekki sagt að ekki þurfa að ræða um starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi. Skattgreiðendur borga milljarða á ári hverju til reksturs Ríkisútvarpsins sem svo í krafti yfirburðastöðu ryksugar upp auglýsingamarkaðinn í krafti stórra viðburða á borð við HM í boltaíþróttum og Júróvisjón. Í umræðunni sem spratt upp eftir að tilkynnt var um lok útgáfusögu Fréttablaðsins var stjórnmálamönnum á borð við Lilju Alfreðsdóttur tíðrætt um breytt samkeppnisumhverfi vegna samfélagsmiðla sem hafa tekið til sín hluta auglýsingamarkaðarins.

Þetta er vissulega rétt að hluta. Allir þeir sem hafa starfað hjá félagasamtökum eða litlum fyrirtækjum vita að auglýsingar sem er ætlað að ná til afmarkaðra hópa henta vel á samfélagsmiðlum. Vaxandi hlutdeild Facebook og annarra fyrirtækja á íslenskum auglýsingamarkaði hefur þannig útrýmt skjáauglýsingum og öðru slíku. Þetta er ekki tekjulindin sem skiptir máli þegar rýnt er í framtíðarhorfur frjálsrar fjölmiðla á Íslandi. Vandinn er Ríkisútvarpið og hvernig ríkismiðillinn sogar til sýn auglýsingamarkaðinn í krafti ríkiseinokunar. Fórnarkostnaðurinn við þessa stefnu er einfaldlega sá að rekstrargrundvöllur frjálsra fjölmiðla fjarar út. Hver er ávinningurinn? Að Bergur Ebbi sé í tveimur þáttum í röð á föstudagskvöldi en ekki einum?

Andlát Fréttablaðsins sýndi einnig fram á mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar. Framganga Sindra Sindrasonar í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann spurði Lilju menningarmálaráðherra allra réttu spurninganna var til fyrirmyndar og ólík silkihönskunum sem fréttastofa ríkisins lét leika um sinn æðsta yfirmann sama kvöld.

Einnig var framganga Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns Blaðamannafélags Íslands og starfsmanns fréttastofu ríkisins, undarleg. Hún gekk fram og sagði að andlát Fréttablaðsins væri til marks um að einhver öfl í þjóðfélaginu væru að vinna gegn frjálsri blaðamennsku. Þetta kann að hljóma vel í eyrum þeirra sem fátækir eru í andanum en stenst enga skoðun eigi að síður. Fréttablaðið stefnir í gjaldþrot einfaldlega vegna þess að lesendur misstu áhuga á blaðinu og vegna stöðu Ríkisútvarpsins. Ekki er þörf á frekari greiningu á málinu.

Það er ekki nóg með að staða RÚV á auglýsingamarkaði grafi undan stöðu frjálsra fjölmiðla. Það virðist í fljótu bragði vera markmið stjórnvalda að grafa undan allri nýsköpun í þessum efnum. Þannig er rekið fyrirbrigði sem kallast Fjölmiðlanefnd sem hefur fjárheimildir sem telur tæpan hálfan milljarð til að hafa afskipti af frjálsum fjölmiðlum. Helsta afrek nefndarinnar er að fótboltahlaðvörpin Dr. Football – stærsti fjölmiðill Kópavogs – og Steve Dagskrá eru núnar skráð sem fjölmiðlar og lúta eftirliti nefndarinnar.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á dögunum þá sendi Gísli Freyr Valdórsson, eigandi og umsjónarmaður hlaðvarps Þjóðmála, Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, erindi vegna samkeppni á fjölmiðlamarkaði og innheimtu útvarpsgjalds. Eins og Gísli benti á í erindi sínu þá þurfa lítil sprotafyrirtæki að byrja á því að greiða Ríkisútvarpinu gjald áður en þau fara að kaupa tól og tæki til miðlunar. Það er í raun óskiljanlegt að stjórnmálamenn sem telja sér trú um að að þeir aðhyllist frelsi geri ekkert í þessu. Eins og haft er eftir Gísla í Viðskiptablaðinu:
Það skýtur skökku við að fyrsti kostnaður slíks félags, að undanskildum kaupum á hljóðnema, er að standa skil á útvarpsgjaldi til stærsta keppinautar hins nýja félags. Það liggur fyrir að á sama tíma og hið nýja félag mun keppast um auglýsingatekjur við Ríkisútvarpið, þá verður það einnig að aðstoða þennan samkeppnisaðila við að fjármagna sig.“

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.