Hagstofan birti hagvaxtatölur í síðustu viku. Hagvöxturinn er hruninn og mældist aðeins 1,1% á þriðja ársfjórðungi samanborið við 6,9% á sama fjórðungi árið á undan. Þetta ætti engum að koma á óvart því þetta er óhjákvæmilegur fylgifiskur vaxtahækkana í baráttunni við verðbólguna. Sú barátta gengur illa.

Enda kemur það í ljós að þær miklu sparnaðaraðgerðir sem ríkisstjórnin þóttist fara í sumar og haust voru auðvitað ekkert annað en sýndarleikur.

Á þriðja ársfjórðungi minnkaði einkaneysla um 1,7% að raunvirði. Það þýðir að almenningur hefur tekið mið af verðbólgunni og dregið saman seglin. En hið opinbera jók samneysluna um 2,3% að raunvirði.

Með öðrum orðum þá hafa ríki og sveitarfélög ekkert gert í baráttunni gegn verðbólgu. Þau eyða og eyða peningum sem eru ekki til þrátt fyrir að skattbyrði á Íslandi hafi ekki verið meiri í áratugi.

***

Innantóm orð

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði grein í Fréttablaðið sem kom út 4. janúar. Þar sagði hann fjarfundi vera mikilvæga aðgerð til að draga úr losun.

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins
Árið 2019 samþykkti ríkisstjórnin loftslagsstefnu Stjórnarráðsins sem hefur það markmið að draga úr losun ráðuneyta um 40% til ársins 2030.
Árið 2018 voru samgöngur langstærsti losunarþátturinn í starfsemi ráðuneytanna. Flug var uppspretta um 70% heildarlosunar en samgöngur í heild orsökuðu 93% losunar Stjórnarráðsins það ár. Það er mikilvægt að við nýtum reynsluna frá Covidtímabilinu til að draga úr losun til framtíðar.
Fjarfundir eru jafnvel auðveldasta staka aðgerðin til þess að draga úr losun. Í desember lagði ég til við ríkisstjórn að meginreglan verði sú að alþjóðafundir, sem og fundir innanlands á vegum Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins, verði haldnir í fjarfundi nema sérstakar aðstæður kalli á annað.

Sami Guðlaugur Þór, en Óðinn hefur oft velt fyrir sér undanfarið hvort þeir séu fleiri en einn, ræddi við mbl.is á fullveldisdaginn 1. desember. Þar var hann m.a. spurður út í 40 manna hóp ríkisstarfsmanna sem eru á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna, COP28.

„Það gæti orðið svo­lítið snúið að hafa þetta á Zoom geri ég ráð fyr­ir. Ég held að það sé útilokað,“ seg­ir Guðlaug­ur og tek­ur fram að um­hverf­is­ráðuneytið leggi áherslu á að halda fjarfundi nema brýn ástæða sé til.
„En ef við hugs­um aðrar leiðir að þá held ég að það sé mjög erfitt – þetta er svo ótrú­lega fjöl­breytt, þú ert með 92 þúsund manns. Það er vegna þess að það er af mjög mörgu að taka.“

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.