*

föstudagur, 14. maí 2021
Guðmundur Pálmason
4. maí 2021 10:07

Ríkið styrkir ríkið

„Það er algjörlega óásættanlegt að stjórnvöld ætli sér annað árið í röð að veita háar fjárhæðir til fræðsluaðila sem nú þegar njóta opinberra styrkja“

Birgir Ísl. Gunnarsson

Ávef Mennta- og menningarmálaráðuneytis birtist frétt frá 9. apríl sl. sem er svo hljóðandi:

„Stjórnvöld hyggjast veita alls 650 milljónir kr. til að tryggja framboð á sumarnámi í sumar; 500 milljónir kr. renna til í háskóla og 150 milljónir kr. til framhaldsskóla. Sumarnámið árið 2020 nýttist mörgum vel og spornaði við atvinnuleysi. Fjölbreyttar námsleiðir voru í boði og sóttu rúmlega 650 nemendur námskeið á vegum 10 framhaldskóla og tæplega 5.000 nemendur um 260 námskeið á vegum háskólanna.”

Fjárveitingin frá ríkinu var notuð til að niðurgreiða námskeiðsgjöld, á námskeiðum sem haldin voru í beinni samkeppni við námskeiðsframboð félagsmanna FA, um tugi prósenta. Þannig voru námskeið, sem alla jafna kosta tugi þúsunda, boðin á 3.000 krónur vegna tilkomu styrkja ríkisins til ríkisreknu skólanna. Einkarekin fræðslufyrirtæki gátu engan veginn keppt við hið niðurgreidda verð og voru ýmis námskeið hjá fyrirtækjunum felld niður af þessum sökum, með tilheyrandi tekjutapi. Segja má að einkareknu fyrirtækin hafi orðið fyrir tvöföldu áfalli í faraldrinum; annars vegar urðu þau af tekjum og urðu að leggja í kostnað við endurskipulagningu á starfsemi sinni vegna samkomutakmarkana, hins vegar urðu þau að takast á við aukna samkeppni frá endurmenntunardeildum háskólanna, sem niðurgreidd var af ríkinu.

Promennt er viðurkenndur fræðsluaðili
Menntamálastofnun viðurkennir Promennt sem fræðsluaðila sem uppfyllir almenn skilyrði laga og reglna um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og reglugerðar nr. 1163/2011. Til þess að öðlast slíka viðurkenningu þurfa margvísleg atriði að vera í lagi og má þar nefna aðstöðu til kennslu og námskeiðahalds, skipulag náms og umsjón með því, námskrár/námslýsingar, hæfni með tilliti til þekkingar og reynslu, fjárhagslegt öryggi, tryggingar og innleitt gæðakerfi. Promennt hefur einnig hlotið gæðavottun evrópska gæðamerkisins, EQM, sem styður við gæði fræðsluaðila og starfsemi þeirra. Promennt hefur verið starfrækt í yfir 20 ár og hefur verið leiðandi í fræðslu til einstaklinga og fyrirtækja.

Stjórnvöld endurtaka leikinn
Einkarekin fræðslufyrirtæki gagnrýna harðlega að stjórnvöld ætli að endurtaka leikinn á meðan málið er til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Félag atvinnurekenda (FA) segir stuðninginn jafngilda samkeppnishamlandi ríkisstyrkjum en FA benti ráðuneytinu réttilega á að niðurgreiðsla á endurmenntunarnámskeiðum, sem haldin væru í samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki, væru brot á 23. gr. a. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Jafnframt færi útfærsla styrkjanna gegn blið 1. mgr. 16. greinar samkeppnislaga. Þá væri sennilegt að útfærsla niðurgreiðslunnar færi í bága við 61. gr. EES-samningsins, en FA hafði fengið staðfest hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að ekki hefði verið leitað álits stofnunarinnar á útfærslu ríkisstyrkjanna.

Í grein Jóns Jósafats Björnssonar, eiganda Dale Carnegie, sem birtist á vef vísir.is 18. apríl síðastliðinn, kemur fram að engin svör fengust í fyrra varðandi þetta fyrirkomulag Mennta- og menningarmálaráðuneytis önnur en að ekki yrði staðið að þessu aftur með sama hætti, þá að ríkið skyldi einungis setja hundruð milljóna í til háskóla og framhaldsskólanna, en þeir eru í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki.

Það er algjörlega óásættanlegt að stjórnvöld ætli sér annað árið í röð að veita háar fjárhæðir til fræðsluaðila sem nú þegar njóta opinberra styrkja en sniðganga einkaaðila sem veita samskonar fræðslu og hafa margir orðið fyrir talsverðu tekjutapi af völdum Covid-19. Meðalupphæð niðurgreiðslu stjórnvalda á árinu 2020 með hverjum nemenda nam um 88 þúsund krónum miðað við þann fjölda sem nýtti sér námið. Þar sem mikill fjöldi námskeiða sem er í boði hjá einkaaðilum er vinsæll meðal þessa hóps sem sækir þessi námskeið og er innan þessa kostnaðarramma er ljóst að hægt er að nýta þessa fjármuni til að auka framboðið og styðja um leið við bakið á einkaaðilum í fræðsluþjónustu. Þeir hafa margir hverjir áratuga reynslu af fullorðinsfræðslu og viðskiptavinir þeirra skipta þúsundum á hverju ári. Er til of mikils ætlast að fá skýr svör frá stjórnvöldum hvað valdi því að enn og aftur skuli horft fram hjá einkaaðilum þegar ráðist er í svo stórt verkefni?

Höfundur er framkvæmdastjóri og eigandi Promennt ehf.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.