365 miðlar töpuðu skattamáli gegn íslenska ríkinu fyrir Hæstarétti Íslands í dag. Dómsmálið snérist um kaup félagsins Rauðsól, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á rúmlega 99,9% hlutafjár í 365 miðlum hf. í byrjun nóvember 2008. Félagið sem seldi hlutinn og fékk nafnið Íslensk afþreying, fór í þrot en í því félagi stóðu eftir milljarðaskuldir.

365 miðlar hafa talið að móðurfélagi samstæðunnar hafi verið heimilt að nýta skattalegt tap sem myndaðist hjá Rauðsól ehf. fyrir sameininguna og vaxtagjöld af lánum Rauðsólar ehf. vegna kaupa og uppgreiðslu á lánum 365 miðla hf. til frádráttar frá skattgreiðslum hins sameinaða félags. Ríkisskattstjóri, yfirskattanefnd og íslenskir dómstólar hafa hins vegar verið sammála um að sú túlkun standist ekki lög. Vísað hefur verið til Toyota-málsins sem byggir á dómi Hæstaréttar nr, 555/2012.

365 miðlar greiddi ríkissjóði viðbótarálagðan tekjuskatt með 25% álagi og dráttarvöxtum árið 2015, sem nam samtals 372 milljónum króna. Félagið hefur síðan þá fært greiðsluna til bókar sem viðskiptakröfu þar sem félagið var ósammála túlkun skattayfirvalda. Félagið mun því að líkindum þurfa að afskrifa kröfuna eftir dóm Hæstaréttar í dag. Heildaráhrif á eigið fé samstæðunnar verður um 584 milljónir króna vegna rekstraráranna 2009 til og með árinu 2015 samkvæmt ársreikningi félagsins.

„Ef endanleg niðurstaða dómstóla verður í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur mun það hafa marktæk áhrif á eiginfjárstöðu samstæðunnar en ekki á lausafjárstöðu samstæðunnar þar sem úrskurðuð viðbótarálagning var greidd á árinu 2015,“ segir í ársreikningnum sem gefinn var út í október, áður en dómur Hæstaréttar féll.

Þá hefur ríkisskattstjóri einnig krafið félagið um upplýsingar varðandi gjaldfærðan fjármagnskostnað vegna rekstraráranna 2012 til 2015 en hefur ekki úrskurðað vegna þess tímabils samkvæmt ársreikningnum.

Um síðustu áramót námu eignir 365 miðla 5,3 milljörðum króna, eigið fé 2,4 milljörðum og skuldir 2,9 milljörðum króna en félagið var rekið með 348 milljóna tapi árið 2017.