*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 20. mars 2017 11:15

Afnám skerðir ekki tekjur ríkissjóðs

Viðskiptaráð gagnrýnir umsagnir þeirra sem færi lýðheilsurök fyrir einokun ÁTVR á sölu áfengis í umsögn sinni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaráð tekur undir með efni frumvarps um afnám á einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis, en ráðið telur mögulegt að ná markmiðum um lágmörkun á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með öðrum leiðum en ríkiseinokun.

Jafnframt telur ráðið að breytingarnar feli í sér aukna hagkvæmni í smásölu áfengis án þess að skerða tekjur ríkissjóðs. Þetta kemur fram í umsögn ráðsins.

Arður fyrst og fremst af tóbakssölu

Arðgreiðslur ÁTVR séu að mestu tilkomnar af tóbakssölunni, sem er mun hagkvæmari vegna kostnaðar við áfengisverslanirnar. Auk þess losni miklir fjármunir þegar eignir stofnunarinnar sem nemi tæpum 6 milljörðum verði seldar.

Loks telur ráðið það vera til bóta að aflétta banni við áfengisauglýsingum því það jafni samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila á markaðnum. Telur ráðið að afnám einkaleyfisins muni leiða til bættrar þjónustu og lægra vöruverðs fyrir neytendur.

Lýðheilsumarkmið geti nást á annan hátt

Viðskiptaráð gagnrýnir í umsögn sinni umsögn annarra aðila um frumvarpið sem og umræðu í þjóðfélaginu þess efnis að helstu rökin fyrir einokun ríkisvaldsins á sölunni sé byggt á sjónarmiðum um lýðheilsu.

Segir ráðið að markmið um að takmarka aðgengi ungmenna að áfengi sé hægt að ná án þess að draga úr atvinnufrelsi, með skilyrðum líkt og gert er með sölu tóbaks.

Ráðið segir jafnframt ekki réttlætanlegt að takmarka almennt aðgengi að áfengi, neysluskattar séu þegar notaðir til þess að reyna að draga úr neyslu og allt umfram það sé óhófleg takmörkun á frelsi bæði smásala og neytenda.

Loks sé alltaf hægt að stýra verðinu með neyslusköttum, hafi menn áhyggjur af lægra verði eða hærra eins og sumir virðast hafa.

Bendir ráðið því á að árangursríkast sé að beita forvarnarstarfi til að draga úr misnotkun áfengis, og vísar það til upplýsinga um minni neyslu meðal ungmenna síðustu ár.

Stikkorð: Viðskiptaráð áfengi ÁTVR áfengissala einokun