Nýlega var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að Aktiva lausnir ehf. hafi stundað greiðsluþjónustu án leyfis. Í yfirlýsingu frá Aktiva kemur hins vegar fram að Aktiva hafi frá upphafi kappkostað að vinna með FME.

Þar kemur einnig fram að félagið hafi verið í samskiptum við Fjármálaeftirlitið mörgum mánuðum áður en lánatorg Aktiva var hleypt af stokkunum og að eftir að aktiva hafði rekið starfsemi sína í um tvo mánuði kom ábending frá FME þar sem það mat að ákveðinn afmarkaður hluti starfsemi Aktiva félli undir lög nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu. Aktiva hætti þá það veita sína þjónustu á meðan félagið vann að því að leysa málið í samstarfi við FME.

Eftir að búið var að bæta úr þeim ábendingum sem bárust opnaði Aktiva fyrir þjónustu sína á ný.

Hér er hægt að lesa yfirlýsingu Aktiva í heild sinni:

Vegna yfirlýsingar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) um að Aktiva lausnir ehf. hafi starfað án leyfis, vill félagið koma því á framfæri að Aktiva hefur frá upphafi kappkostað að vinna með FME. Félagið var í samskiptum við FME mörgum mánuðum áður en lánatorg Aktiva var hleypt af stokkunum.

Eftir að Aktiva hafði rekið starfsemi sína í um tvo mánuði kom ábending frá FME þar sem það mat sem svo að ákveðinn og afmarkaður hluti starfsemi Aktiva félli undir lög nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, sem er starfsleyfisskyld.

Aktiva hætti þá þegar að veita sína þjónustu á meðan félagið vann að lausn málsins í góðu samráði við FME. Eftir að búið var að bæta úr þeim ábendingum sem bárust opnaði Aktiva á ný fyrir sína þjónustu í samráði við FME.

Í framhaldi af ábendingum FME hefur Aktiva sótt um starfsleyfi sem veitandi greiðsluþjónustu og er sú umsókn í vinnslu hjá FME.

Í þessu samhengi er rétt að líta til þess að starfsemi lánatorgs Aktiva er ný af nálinni hérlendis og þekking á eðli starfsemi jafningjalána (e. peer-to-peer lending) því takmörkuð. Starfsemi þessi er vel þekkt víða erlendis og er talin marka straumhvörf í lánafyrirgreiðslu þar sem bankar eru ekki lengur milliliðir þegar kemur að lánum. Á lánatorgi Aktiva skipta lántakar og lánveitendur með sér vaxtamuni þeim sem bankar taka sér fyrir sína milligöngu. Þetta er notendavæn og örugg lausn þar sem bæði er hægt að fá lánað fé á fyrirhafnarlítinn hátt á sanngjörnum kjörum og þar sem fjárfestar geta fengið góða ávöxtun á sitt fé með því að lána það áfram.

Lántakendur Aktiva er metnir af CreditInfo og aðeins er lánað til þeirra sem uppfylla ákveðnar kröfur um lánshæfi.
Af útlánasafni Aktiva eru einungis 0,25% þess í vanskilum í dag og framhaldið lofar góðu.

Í fréttinni kemur fram að Andri Úlfarsson sé framkvæmdastjóri félagsins, en hið rétta er að framkvæmdastjóri þess er Hrafn Árnason.