*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 30. júní 2012 19:15

Auðlindarentan rann til fyrri eigenda

Mikil viðskipti hafa átt sér stað innan kvótakerfisins og renta hefur horfið úr greininni. Rými til skattlagningar er því takmarkað.

Lilja Dögg Jónsdóttir
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Veiðigjaldið er ódýr og ómarkviss leið. Það þarf að taka afleiðingunum af því tel ég. Og stilla það þannig að það sligi ekki útgerðina. Í ofanálag skiptir munurinn á numdum og ónumdum auðlindum máli,“ segir Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Á að taka tillit til þess að sumar auðlindir hafa verið nýttar um langt skeið, hugsanlega innan kerfa þar sem nýtingarrétturinn hefur verið framseljanlegur? Við gerum ráð fyrir að þeir sem hafa keypt nýtingarrétt hafi borgað fyrir hann núvirði alls framtíðarhagnaðar, raunverulegt virði réttarins. Er þá hægt að skattleggja þann hóp eftirá?,“ segir Daði.

Hann bendir á að líklegt verði að teljast að kaupendur áætli virði kvótans rétt og hafi greitt sannvirði fyrir aðgang að auðlindinni. „Þá er í sjálfu sér ekkert rými eftir í rekstrinum til að greiða auðlindarrentu. Hún rann öll til fyrri eigenda.“ Daði bætir við að nú kunni einhverjir að mótmæla og segja að menn hafi mátt vita að gjaldtakan myndi koma þar sem þeir voru að versla með hluti sem þeir áttu ekki.

„Það er kannski í sjálfu sér eitthvað til í því en það breytir hins vegar ekki stöðunni. Þú skattleggur ekki tekjustrauma sem ekki eru til. Og ef þú skattleggur þessi útgerðarfyrirtæki þá tapar einhver. Til dæmis eigandi þeirra eða bankakerfið.“

En þá kunna sumir að segja að einhverstaðar þurfi að byrja?

"Já örugglega og ég er í sjálfu sér ekki ósammála þeim. En þá eru þarna tvö sjónarmið fyrir því að fara varlega. Annars vegar að þetta er ómarkviss, ódýr gjaldtaka. Ómarkvisst þýðir þá að ef þú ætlar ekki að valta yfir einhverja samborgara þína þá þarftu að fara varlega. Hitt er að hvort sem menn vilja horfast í augu við það eða ekki þá er kvótakerfið orðið mjög þroskað. Þá á ég við að mikil viðskipti hafa átt sér stað og renta hefur horfið út úr greininni. Sem þýðir að skattlagning og rými til hennar er takmarkað, einfaldlega vegna þess að verulegur hluti af rentunni er horfinn. Þess vegna þarf einhvern veginn að vinna þetta í þrepum og það eru vissulega hugmyndir um það í þessu frumvarpi," segir Daði.

Nánar er fjallað um málið í viðtali við Daða Má í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.