Tölvuleikjarisinn Electronic Arts (EA) hefur aftur verið valið versta fyrirtæki Bandaríkjanna af notendum neytendasíðunnar Consumerist. Önnur fyrirtæki sem voru ofarlega á listanum voru Bank of America, Ticketmaster og Comcast.

EA hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið og er skemmst að minnast þess hve skelfilega illa var staðið að útgáfu nýjasta SimCity leiksins. Til að geta spilað leikinn þurfa spilarar að tengjast netþjónum EA í gegnum netið, en þeir lágu hins vegar niðri í nokkurn tíma eftir útgáfuna og var því ekki hægt að spila leikinn.

Afsakanir EA hafa einnig farið fyrir brjóstið á mörgum, því fyrirtækið hefur ekki viljað viðurkenna að nettengingin sé í raun ætlað að minnka ólöglega afritun og dreifingu á leiknum. Þvert á móti hefur EA haldið því fram að netþjónunum sé ætlað að sjá um hluta af útreikningum og grafík leiksins hjá hverjum og einum spilara. Þessu virðast fáir trúa.

Þá hefur fyrirtækið sætt gagnrýni fyrir að „troða“ smágreiðslukerfum inn í leiki sem fólk er búið að greiða þúsundir króna fyrir. Slík greiðslukerfi hafa einkum einkennt ókeypis leiki og því fór það í taugarnar á mörgum þegar kerfinu var komið fyrir í Dead Space 3.

Það kaldhæðnislega er að EA er, þegar horft er á hlutina með hlutlægum hætti, alls ekki versta fyrirtæki Bandaríkjanna, eins og segir í grein Forbes um málið. Vandi fyrirtækisins er sá að viðskiptavinir þess eru flestum öðrum hópum virkari á netinu. Strax og opnað var fyrir tilnefningar hjá Consumerist fór af stað mikil herferð á vefsíðum eins og 4chan og Reddit gegn EA.

Eins og segir í grein Forbes þá eru hreinlega ekki til svo mörg eða áhrifamikil samfélög á netinu þar sem fólk kvartar undan þóknanakerfi Bank of America eða stefnu United flugfélagsins hvað varðar handfarangur.