Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka, segir í frétt Bloomberg fréttaveituna að það sé ekki góð hugmynd að láta bönkum eftir of mikið svigrúm með innstæður sparifjáreigenda, innstæður sem bankarnir þurfa ekki að greiða tilbaka ef illa fer. Hann bætir sér því í hóp þeirra sem telja það skynsamlegt að aðskilja starfsemi fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi hér á landi.

Í viðtalinu segir Pétur að Evrópa eigi að líta til Íslands til að sjá hversu mikinn skaða of stórt bankakerfi geti valdið. Hann segir enn fremur að breytingar sem þurfi að gera eigi að vera innstæðueigendum og fyrirtækjum sem bankarnir þjónusta til góða en ekki bönkunum sjálfum.

Í frétt Bloomberg er fjallað um mögulegan aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabanka sem töluvert hefur verið rætt um í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri. Meðal annars er rætt við Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi breytingar á íslenskri löggjöf vegna starfsemii fjármálafyrirtækja. Einnig er rætt við Davíð Stefánsson, sérfræðing hjá greiningardeild Arion banka, sem bendir á að fjárfestingabankastarfsemi telji nú einungis um 5% af starfsemi íslensku bankanna.