Enn eru íslenskir fjárfestar orðaðir við sænska fjármálafyrirtækið Carnegie en samkvæmt sænska fjármálavefnum e24.se hefur útibú Glitnis í Svíþjóð undanfarið safnað upp 4,5% stöðu í Carnege sem enginn veit hver á. Talið er að bankinn sé að safna þessu fyrir viðskiptavin sinn. Á fáum dögum hafa verið umtalsverð viðskipti með bréf félagsins og vitað að Glitnir hefur verið stíft á kauphliðinni.

Carnegie hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarið í kjölfar hneykslismála sem komu upp og því þykir mörgum sem félagið sé ákjósanlegt yfirtökuskotmark, enda höfðu bréf félagsins lækkað mikið þar til yfirtökuorðrómur tók að ýta undir þau. Félagið er um það bil 10 sinnum minna en Kaupþing banki áður en hann keypti NIBC. Í vor var þrálátur orðrómur um yfirtöku á Carnegie og greindu sænskir fjölmiðlar þá frá því að starfsmönnum Kaupþings hefði verið bannað að kaupa bréf í Carnegie og skipti þá engu þótt það væri fyrir viðskiptavini. Sænskir miðlar hentu þá þeirri hugmynd á loft að Kaupþing hygðist taka yfir Carnegie, þótt Kaupþings menn neituðu því í persónulegum viðtölum. Áður hafði Straumur-Burðarás byggt upp álitlega stöðu í félaginu.

Carnegie er einn af níu fjárfestingarbönkum sem sænska ríkisstjórnin hefur fengið til liðs við sig til ráðgjafar í einkavæðingarferlinu, en fyrir það mun Carnegie fá rausnarlega þóknun. Bankinn veitti aðstoð við sölu á 8% hlut í fjarskiptafyrirtækinu TeliaSonera og hefur verið skipaður ráðgjafi við sölu á 6,6% hlut ríkisins í OMX kauphöllinni.

Í kjölfar hneykslismálsins varð Carnegie varð að leggja 33 milljónir Bandaríkjadala til hliðar, eða ríflega tvo milljarða króna, en fjárhagur félagsins hefur smám saman verið að rétta úr kútnum en hneykslismálið blossaði upp að nýju nú í vikunni. Þar sem ekki er um að ræða ráðandi hluthafa í hluthafahópi Carnegie hafa menn talið félagið eðlilegt yfirtökuskotmark. Ekki síst nú þar sem gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 20% frá áramótum.