Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið, ESMA, hefur samþykkt bann á markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundarvalréttum. Jafnframt setur evrópustofnunin skorður við markaðssetningu, dreifingu og sölu á mismunasamningum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desember á síðasta ári var stofnunin með þetta til skoðunar en nú hefur ákvörðunin verið tekin.

Segir á vef Fjármálaeftirlitsins að gylliboð um háa vexti í þessum fjármálagerningum hafi höfðað til almennra fjárfesta, en flækjustig umræddra fjármálagerninga og há skuldsetning, í tilfelli mismunasamninga, hafa orðið til þess að þeir hafa tapað umtalsverðum fjármunum.

Vegna þess hve auðvelt hefur verið að markaðssetja gerningana yfir landamæri segir að samvinna Evrópuríkja um bannið hafi þótt nauðsynlegt.