Utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 12,5% milli áranna 2014 og 2015, sem þýðir að í fyrra voru ferðirnar um það bil jafnmargar og metárið 2007 eða 450 þúsund talsins. Þetta kemur fram í ársskýrslu Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Ferðalög til útlanda eru næmar fyrir hagsveiflum. Þrátt fyrir að krónan sé veikari en hún var fyrir hrun jókst kaupmáttur launa 5,5% í fyrra og er meiri en hann var árið 2007. Það skýrir að stórum hluta þessa auknu ferðagleði landans.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, sagði á aðalfundi SAF að metið yrði slegið á þessu ári. Íslendingar myndu ferðast til útlanda í meira mæli en þeir gerðu árið 2007. Þór Bæring Ólafsson, annar eigenda ferðaskrifstofunnar Gaman Ferða, segist finna fyrir mikilli aukningu milli ára.

„Við höfum reyndar verið að stækka mjög hratt,“ segir Þór Bæring. „Við stofnuðum fyrirtækið 2012 og höfum nánast verið að tvöfalda okkur á hverju ári, þannig að vöxturinn hefur verið gríðarlegur. Ég var í þessum geira líka árið 2007 og helsta breytingin nú miðað við þá er að fleiri eru búnir að safna fyrir ferðunum. Hugarfarið er aðeins öðruvísi. Það er líka mikið af fjölskyldum að fara saman, jafnvel stórfjölskyldur, sem eru jafnvel ekki búnar að fara neitt saman til útlanda síðan 2007. Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé uppsöfnuð ferðalöngun ef svo má segja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Reykjavíkurborg ætlar að endurnýja malbik á 4% af götum borgarinnar í sumar.
  • Allt að 10,5% munur er á greiðslubyrði húsnæðislána hjá viðskitpabönkunum.
  • Húsaleiga vegna sendiráðsskrifstofa og sendiráðsbústaða Íslands nam samtals 450 milljónum króna í fyrra.
  • Þjóðhagsstofnun tekur til starfa í apríl.
  • Ben Dressler, sérfræðingur í notendahegðun hjá Spotify, er í viðtali.
  • Raforkuspá Orkustofnunar er til umfjöllunar.
  • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna er í ítarlegu viðtali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Þjóðhagsstofnun.
  • Óðinn fjallar um skýrslu Moody's um evrusvæðið.