Philippe Dauman, forstjóri ljósvakafyrirtækisins Viacom, mun í næsta mánuði segja starfi sínu lausu og í leiðinni fá 72 milljóna dollara, eða 8,5 milljarða króna, starfslokagreiðslu frá fyrirtækinu. Áður en það gerist er talið að Dauman muni tilkynna sölu á hlut félagsins í framleiðslufyrirtækinu Paramount Pictures.

Brotthvarf Dauman kemur í kjölfar baráttu hans við ráðandi hluthafa Viacom, Sumner Redstone, en þar til nýlega voru þeir hinir mestu mátar. Dauman hefur unnið fyrir hinn 93 ára gamla Redstone í 30 ár.

Í maí ákvað Redstone hins vegar að fjarlægja Dauman og annan stjórnarmann, George Abrams, úr stjórn National Amusements – félags sem stýrir ráðandi hlut Redstone í Viacom og sjónvarpsstöðinni CBS.

Redstone sagði á þeim tíma að hann væri óánægður með áform Dauman um að selja hluta í Paramount Pictures. Forstjórinn sagði hins vegar að dóttir Redstone, Shari Redstone, hefði leikið hlutverk í brotthvarfi þeirra. Ásökuðu þeir hana um að spila með föður sinn og höfðuðu málsókn þar sem því var haldið fram að Redstone gæti ekki tekið slíkar ákvarðanir sjálfur. Hún neitaði ásökunum þeirra.

Thomas Dooley, framkvæmdastjóri Viacom, verður forstjóri til bráðabirgða þar til fyrirtækið ræður eftirmann Dauman í lok september.