Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, segir efnahagshorfur á Íslandi vera betri en í öðrum OECD löndum, auk þess sem þær fari batnandi. Hann segir afnám fjármagnshafta munu vera áskorun, auk þess sem kerfið í kringum gerð kjarasamninga hér á landi valdi áhyggjum.

Hann segir aukna samkeppni, bætta menntun og bætta hæfni vinnuaflsins geta aukið framleiðni á Íslandi. Bætt vinnustaðaþjálfun sé einnig lykilatriði, því þannig megi auka skilvirkni vinnumarkaðarins.

Gurría segir einnig að ríkisvaldið þurfi ekki að eiga banka til þess að ná fram aukinni samkeppni í fjármálageiranum. „Ríkisvaldið er gott í því að setja reglur, ekki í því að eiga framleiðsluþætti eða bankana í þessu tilfelli,“ segir Gurría.

Gurría bendir á þá tillögu OECD að Íbúðalánasjóður hætti að stunda útlánastarfsemi. Þeir fjármunir sem hefur verið varið í starfsemi Íbúðalánasjóðs myndu betur gagnast í því að aðstoða ungt fólk ef þeim væri varið í að styðja við leigumarkaðinn.

Spurður um lítinn ójöfnuð á Íslandi segir Gurría að ójöfnuður sé eitt helsta áhyggjuefnið um allan heim. Lítill ójöfnuður, eins og raunin er á Íslandi, bæti traust í samfélaginu og auki þannig félagslegan og stjórnmálalegan stöðugleika.

VB Sjónvarp ræddi við Gurría.