Fullyrðingar um að Matthías Imsland, fyrrv. forstjóri Iceland Express og núverandi rekstrarstjóri Wow air, hafi verið byrjaður að undirbúa stofnun Wow air á meðan hann gegndi stöðu forstjóra Iceland Express, eru rangar.

Þetta kemur fram í gögnum sem Viðskiptablaðið hefur fengið aðgang að.

Eins og fram kom á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag sökuðu þeir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, og Skarphéðinn Berg Steinarsson, núverandi forstjóri, Matthías um að hafa stolið trúnaðargögnum frá Iceland Express þegar honum var sagt upp sem forstjóra þann 19. sept. sl.

Á blaðamannafundi sem haldinn var fyrr í dag afhentu þeir blaðamönnum útprentaða tölvupósta og héldu því fram að Matthías hefði verið byrjaður að undirbúa stofnun Wow air, eða í það minnsta nýs flugfélags, á meðan hann gegndi stöðu forstjóra Iceland Express.

Í stuttu máli sýna tölvupóstarnir samskipti Matthíasar við erlenda flugvélamiðlara, Rob Johnson hjá Ford Aviation, þar sem leitast er eftir því að leigja Boeing 737-400 vél af kanadísku flugfélagi. Það er vissulega rétt að Matthías hafði sem forstjóri Iceland Express verið í sambandi við Johnson um leigu á vélinni. Í þeim tölvupóstum sem dreift var á fundinum fyrr í dag kemur fram að vélarnar séu ætlaðar í sumarleigu fyrir Iceland Express. Þar kemur m.a. fram að Iceland Express geti m.a. útvegað aðstöðu fyrir þjálfun flugáhafna.

Í gögnum sem Viðskiptablaðið hefur fengið aðgang að kemur fram með enn skýrari hætti að vélarnar voru ætlaðar í sumarleigu fyrir Iceland Express. Þannig stóð til að leigja vél aðeins yfir sumartímann en að eigendur vélarinnar myndu ráðstafa  henni í annað yfir vetrartímann.

Rétt er að rifja upp að síðasta sumar gekk mjög illa hjá Iceland Express vegna mikilla tafa og hárrar bilanatíðni þeirra véla sem þá voru í notkun. Félagið nýttist þá við Boeing 737 vélar í eigu Astraeus, sem var í eigu Pálma Haraldssonar, sem einnig er eigandi Iceland Express. Astraeus varð sem kunnugt er gjaldþrota í nóvember sl. og sama dag tilkynnti Iceland Express að samningar hefðu náðst við tékkneska flugfélagið CSA Holidays um leigu á tveimur Airbus A320 vélum. Rétt er að taka fram að síðan þá hefur stundvísi og áætlun Iceland Express stórlagast.

Í fyrrnefndum gögnum kemur fram að vélar Astreaus hafi ekki reynst Iceland Express nógu vel og því hafi Matthías séð ástæðu til að leita fyrir sér með leigu á öðrum vélum, m.a. fyrrnefndri Beoing 737-400 vél. Þar kemur sem fyrr segir skýrt fram að vélarnar séu ætlaðar Iceland Express fyrir sumarið 2012, annað hvort til þriggja eða fjögurra mánaða.

Þá hefur Viðskiptablaðið einnig undir höndum gögn sem sýna að Rob Johnson hafði ekki fengið svar frá Iceland Express eftir að Matthías lét af störfum í september 2011.