Haraldur Leví Gunnarsson, plötuútgefandi og eigandi Record Records, hefur stofnað nýtt félag, Fyrsta upplag ehf., utan um innflutning á geisladiskum og vínylplötum. Hann er því að flytja þá deild Record Records sem hefur séð um geisladiskaframleiðslu og innflutning í þetta nýja félag og segir það gert til einföldunar.

„Fyrsta upplag ehf. heldur utan um allan innflutning á geisladiskum og í rauninni verður nýr þjónustuaðili fyrir framleiðslu á geisladiskum og vínyl fyrir Record Records og sjálfstæða útgefendur sem við vinnum með líka.“

Record Records gefur út fjölmarga íslenska tónlistarmenn og hljómsveitir, meðal annars Of Monsters and Men, FM Belfast, Mono Town, Moses Hightower, Lay Low, Tilbury og Retro Stefson. Þá mun Record Records gefa út fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar Amaba Dama, sem kemur út í nóvember. Eins og Haraldur nefnir starfar útgáfan líka með sjálfstæðum útgefendum. Þá hefur Record Records nýlega gefið út tvær safnplötur undirnafninu This Is Icelandic IndieMusic.

Haraldur Leví hefur einnig komið að stofnun annars félags, sem var stofnað nýlega utan um rekstur á tónlistarmanninum Júníusi Meyvant. Félagið stofnaði hann ásamt tónlistarmanninum sjálfum, sem heitir réttu nafni Unnar Gísli Sigurmundsson, en Haraldur Leví sér um framkvæmdastjórn í félaginu. Það félag heitir Slidda ehf og tilgangur þess er hljóðupptaka, tónlistarútgáfa, tónleikahald og skyld starfsemi fyrir Júníus Meyvant. „Hann er að klára plötu núna og við erum að fara að herja á þetta,“ segir Haraldur Leví.