Samtök iðnaðarins lýsa yfir vonbrigðum með að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjalds að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum. Reiknað er með að gjaldið skili ríflega 100,8 milljörðum króna á næsta ári sem er tæplega 3,5 milljörðum krónum meira en á þessu ári.

Tryggingagjaldið mun því þrátt fyrir boðaða 0,25 prósentustiga lækkun skila ríkissjóði meiri tekjum á næsta ári en á þessu ári. Tryggingagjald er lagt á launakostnað fyrirtækja og samanstendur af almennu tryggingagjaldi og atvinnuleysistryggingagjaldi.

Kemur verst niður á fyrirtækjum

Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hátt tryggingagjald veikir því samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest segja samtökin. Bætt samkeppnishæfni Íslands er eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmálanum og er boðuð lækkun tryggingagjaldsins framlag til þess.

Samtök iðnaðarins benda hins vegar á að samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað umtalsvert á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana mælt í erlendri mynt.

Einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs

Þessi þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem helst keppa við erlend fyrirtæki. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið en það er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs en samkvæmt frumvarpinu mun það skila 14,4% af skatttekjum ríkissjóðs á næsta ári.

Fyrir efnahagsáfallið 2008 var tryggingagjaldið 5,34%. Í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 var gjaldið hækkað í 8,65%. Hækkun tryggingagjalds var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af skyndilegu atvinnuleysi sem skapaðist í því efnahagsáfalli.

Nú þegar atvinnuleysið er lítið eiga þau rök sem notuð voru til að hækka gjaldið á sínum tíma ekki lengur við segir í tilkynningu Samtaka iðnaðarins.