*

sunnudagur, 26. maí 2019
Fólk 25. nóvember 2018 19:01

Hraður vöxtur framundan

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch er nýr vörustjóri Florealis.

Sveinn Ólafur Melsted
Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, nýr vörustjóri Florealis, er að eigin sögn mikill bókaormur og les hún mikið af skáldsögum.
Haraldur Guðjónsson

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, nýr vörustjóri lyfjafyrirtækisins Florealis, segir að hún hafi verið mjög spennt fyrir því að byrja í nýja starfinu og frá því að hún hóf störf hafi hún orðið sífellt spenntari fyrir starfinu með hverjum deginum sem líður.

„Ég starfa sem vörustjóri og ber því ábyrgð á öllum vörum félagsins og sömuleiðis vörustefnunni. Þetta er mjög fjölbreytt starf sem nær alveg frá hugmyndavinnu, sem mér þykir mjög skemmtileg, yfir í sölu- og markaðsmál og allt annað sem er þar á milli. Ég fæ einnig að grúska aðeins í þeim vísindum sem liggja á bak við vörurnar. Það er mjög skemmtilegt að koma inn í fyrirtækið á þessum tíma. Ég yfirgaf mitt eigið fyrirtæki sem ég er búin að reka í nokkur ár og kem hér inn á annan stað þar sem vörurnar eru komnar út á markað. Ég tel fyrirtækið eiga helling inni á markaðnum og það verður gífurlega spennandi að vinna hérna næstu árin og fá að fylgjast með vextinum, sem ég hef trú á að verði hraður."

Fyrrnefnt fyrirtæki Söndru heitir Platome líftækni og situr Sandra í stjórn fyrirtækisins en áður gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra. Fyrirtækið tekur efnivið frá Blóðbankanum sem ekki er hægt að nota þar og breytir því í vörur fyrir líftækniiðnaðinn til þess að rækta stofnfrumur í.

„Við höfum búið til nýjan ræktunarvökva fyrir stofnfrumur sem innihalda ekki neinar dýraafurðir og er þar af leiðandi öruggur kostur fyrir klínískar prófanir á stofnfrumumeðferðum. Fyrirtækið var formlega stofnað árið 2016 en vinna við hugmyndina á bakvið það hófst árið 2011. Ég og dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson þróuðum þessa tækni í sameiningu og stofnuðum fyrirtækið saman," segir Sandra.

Sandra kemur einnig reglulega fram sem fyrirlesari. Þess má til gamans geta að í hádeginu á dögunum hélt hún fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um nýsköpun og tækifæri nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

Frítíma sínum eyðir Sandra að miklu leyti heima hjá sér með eiginmanni sínum og fjögurra ára dóttur þeirra. Að sögn Söndru er bókalestur hennar helsta áhugamál og les hún mikið af skáldsögum.

„Ég hef einnig rosalega gaman af því að hreyfa mig og ég fer oft í ræktina snemma á morgnana áður en ég mæti til vinnu. Matargerð þykir mér einnig mjög skemmtileg og ég elska að elda góðan mat. Ítölsk matargerð er í uppáhaldi en svo er ég einnig mikið í því að blanda mismunandi matargerðum saman og því má segja að ég sé með hálfgert heimagert fusion eldhús í gangi heima hjá mér."

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim