Það sem af er viðskiptadegi heldur gengi bréfa Icelandair áfram að hækka annan daginn í röð. Gengi bréfa félagsins lækkaði mikið í kjölfar þess að afkomuviðvörun barst frá félaginu eftir lok viðskipta á þriðjudag.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 4,84% í 584 milljón króna viðskiptum. Úrvalsvísitalan hefur einnig hækkað eða um 1,89% og er grænt yfir kauphöllinni í dag og hefur ekkert bréf lækkað í virði eins og staðan er nú á markaði.

Næst mesta hækkunin er á gengi bréfa Marel eða um 2,35% í 583 milljón króna viðskiptum.

Önnur bréf sem hafa hækkað nokkuð í dag í virði eru bréf N1 sem hafa hækkað um 2,24% í 203 milljón króna viðskiptum og bréf Símans, sem hafa hækkað um 1,90%  í 100 milljón króna viðskiptum.