Kári Stefánsson hefur stefnt lögmanninum Karli Axelssyni. Ástæðan er sú að Kári vill fá hnekktum úrskurði sem úrskurðarnefnd Lögmannafélagsins kvað upp um þóknun sem Karl Axelsson vill fá greidda fyrir störf sín fyrir Kára.

Karl Axelsson, hrl.
Karl Axelsson, hrl.
© BIG (VB MYND/BIG)

Forsaga málsins er sú að Kári hefur staðið  í miklum deilum fyrir dómstólum vegna byggingu húss hans við Fagraþing í Kópavogi. Ágreiningur hefur verið á milli Kára og verktaka vegna greiðslna fyrir byggingu hússins. Í þeim málaferlum hefur Karl Axelsson, einn eigandi Lex lögmannsstofu, gætt hagsmuna Kára. Lögmannsstofan Lex hefur sent Kára reikninga vegna þeirrar þjónustu en þá hefur hann neitað að greiða.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu um daginn telur Kári að sú þóknun sem Lex vill fá vegna þjónustunnar sé of há. Hann skaut því málinu til úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins. Nefndin úrskurðaði hins vegar Lex í vil. Lögmannsstofan fékk því þá framgengt að sýslumaður gerði fjárnám í húsi Kára og þannig fengi lögmannsstofan veð í húsinu vegna ógreiddra reikninga.

Viðskiptablaðið greindi einnig frá því að Kári hefði höfðað mál gegn Lex til að fá fjárnámskröfunni hnekkt. Nú hefur hann einnig höfðað mál gegn Karli Axelssyni til þess að fá niðurstöðu úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins hnekkt þannig að reikningurinn frá Karli verði lægri.

Kári Stefánsson hefur því höfðað tvö mál tengdum Lex. Annarsvegar gegn Lex og hins vegar gegn Karli Axelssyni persónulega.