Hagfræðideild Landsbankans spáir 5,5% hagvexti í ár í hagspá frá 2017-2020 sem kom út í dag. Það er dálítið úr samræmi við áætlanir Seðlabankans sem gera ráð fyrir 3,7% hagvexti í ár og voru kynntar á fimmtudaginn í síðustu viku.

Þá spáir Landsbankinn 4,5% hagvexti á næst ári, 3,6% árið 2019 og 2,5% árið 2020. Samkvæmt spánni mun einkaneyslu og vera megindrifkraftur hagvaxtar á spátímanum. Innflutningsvöxtur verður þó meiri en útflutningsvöxtur.

„Einkaneysla jókst af miklum krafti í fyrra, eða um 7,1%. Bráðabirgðatölur fyrir fyrri helming þessa árs benda til þess að vöxturinn hafi verið enn kraftmeiri framan af ári, eða 8,3% milli ára,“ segir í spánni en kaupmáttur hefur aðeins aukist um 4,7% á árinu. Ennfremur að enn sé kraftur í launahækkunum en í september hafði launavísitalan hækkað um 7,4% á 12 mánaða tímabili.

Þá segir jafnframt að mjög hagstætt sé að byggja um þessar mundir. „Sé litið á samhengi íbúðaverðs og byggingarkostnaðar til lengri tíma má sjá að sjaldan hefur verið hagstæðara að byggja en einmitt um þessar mundir. Þrátt fyrir að dregið hafi úr verðhækkunum á fjölbýli síðustu mánuði er bilið á milli verðhækkana og byggingarkostnaðar engu að síður enn sögulega mjög mikið.

Hagfræðideildin gerir ráð fyrir að fjárfesting verði mikil og þá einkum atvinnuvegafjárfesting sem er áætluð að vaxi um 8,6 á þessu ári og 8,1% á því næsta. Þegar líða fer á spátímann er þó talið að draga fari úr atvinnuvegafjárfestingu samdráttur á henni verði 2,1%.