Sigríður Á. Andersen nýtur áfram trausts hjá ríkisstjórninni allri og hyggst ekki segja af sér sem dómsmálaráðherra að því er fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar . Sagði hún dóm Mannréttindadómstóls, sem Viðskiptablaðið sagði frá í morgun , bæði óvæntan og fordæmalausan.

Jafnframt sagði hún það koma á óvart að dómurinn hafi klofnað í afstöðu sinni til þess hvort að dómarar við Landsrétt séu vanhæfir eður ei vegna þess hvernig þeir voru skipaðir, og benti hún á að forseti réttarins hefði verið í minnihlutanum, og sagði hún dómsorð hans sláandi.

„[A]ð meirihlutinn hafi látið opinbera umfjöllun pólitíska um málið bera sig af leið og vikið frá fyrri fordæmum. Það finnst mér alvarlegt að lesa og við þurfum að greina þetta og leita álits,“ segir Sigríður sem segist hafa axlað ábyrgð á málinu frá upphafi.

„Ég geri það en það er alveg rétt sem þú nefnir að það er verið að finna að málsmeðferð allri, þar á meðal á Alþingi. Það var ekki við mig að saka þar á sínum tíma. Niðurstaðan er að málsmeðferð hafi verið gölluð, það hef ég alltaf sagt. Frá upphafi. Það þarf að skoða þetta ferli, hvernig skipan dómara er háttað.“

Lögmæti skipunarinnar ljóst og dómararnir skipaðir ævilangt

Segir hún koma til greina að skjóta málinu til yfirdómstóls, en ríkið þurfi að gera það innan þriggja mánaða. Benti hún á að dómurinn kunni að hafa áhrif um alla Evrópu.„[É]g minni á og bendi á og árétta að afstaða íslenskra dómstóla til lögmætis skipunar dómaranna í Landsrétti liggur alveg skýr fyrir. Það voru nú allar þrjár greinar ríkisvaldsins sem einmitt komu að þeirri skipun og endaði núna síðast með Hæstarétti sem dæmdi þessa skipun lögmæta,“ segir Sigríður.

„Landsréttur er lögmætt skipaður. Dómarar eru skipaðir ævilangt, það verður ekki hróflað við þeim. Dómurinn hefur ekki þannig afleiðingar að dómar rakni upp. Menn geta óskað eftir endurupptöku ef þeir telja það þjóna hagsmunum sínum. Menn geta ekki fríað sig réttarhöldum út af þessu.“

Píratar krefjast afsagnar en niðurstaðan ekki bindandi

Píaratar hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir segja niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, vera áfellisdóm yfir ráðherranum. Krefst flokkurinn tafarlausrar afsagnar ráðherrans, og segja þeir málið skýrt dæmi um óeðlileg afskipti framkvæmdavaldsins af dómsvaldinu og pólitíska spillingu.

Ákvörðun Sigríðar og yfirlýsingar um stuðning er samhljóma því sem haft var eftir Birgi Ármannssyni þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins í RÚV . „Hún hefur gert grein fyrir sínum skoðunum og afstöðu í þessu og staðið af sér vantraust vegna þessa máls,“ bendir Birgir á.

Hann sagði niðurstöðu dómstólsins ekki bindandi og breyti engu um stöðu ráðherrans. „Hann hefur ekki bindandi niðurstöðu nema að því leyti að íslenska ríkið þarf að borga málskostnað,“ segir Birgir en um er að ræða 15 þúsund evrur, eða sem samsvarar tveimur milljónum króna.

Birgir segist ekki er sammála niðurstöðu dómstólsins en hann vísar líkt og ráðherrann í þveröfuga niðurstöðu þeirra tveggja dómara sem skiluðu séráliti. „Ég segi fyrir mitt leyti að ég er jafn ósammála þeirri niðurstöðu og ég var niðurstöðu Hæstaréttar.“