*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 6. mars 2018 11:26

Leggja til 1,5 milljarða arðgreiðslu

Stjórn TM leggur til arðgreiðslu sem nemur tæplega 50% af hagnaði og hækkun launa stjórnarformanns.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hefur ákveðið að leggja til að 1,5 milljarðar verðir greiddir út í arð til hluthafa á aðalfundi félagsins sem fer fram 15. mars. Það er rétt tæplega helmingur hagnaðar ársins 2017 en TM hagnaðist um 3,1 milljarð á síðasta rekstrarári.

Útborgunardagur arðs verður 27. mars verði tillagan samþykkt en arðleysisdagur verður 16. mars og arðsréttindadagur 19 mars.

Þá hyggst stjórnin jafnframt leggja til að henni verði veitt heimild til að kaupa allt að 10% eigin bréfa félagsins í þeim tilgangi að lækka hlutafé þess. Þó er í tillögunni gert ráð fyrir að fjárhæð endurkaupanna verði aldrei meiri en 1 milljarður króna.

Jafnframt er gerð tillaga um að þóknun hvers stjórnarmanns verði 425.000 krónur og þóknun formanns stjórnar verði tvöföld þóknun stjórnarmanns eða 850.000 krónur á mánuði. Á síðasta ári var formaður stjórnar, Örvar Kærnested, samtals með 9,5 milljónir króna í heildarlaun eða sem nemur tæpum 794 þúsund krónum á mánuði. Því má reikna með að laun stjórnarformannsins hækki um 7,1% á næsta ári nái tillaga stjórnar fram að ganga.

Sá stjórnarmaður sem mest fékk greitt hins vegar var Andri Þór Guðmundsson, með 5,3 milljónir króna en miðað við fyrirliggjandi tillögu mun hann fá 5,1 milljón haldi hann sæti sínu í stjórn.  Það er launalækkun upp á 3,8%.