Skeljungur hf. og hluthafar í móðurfélagi 10-11 hafa ákveðið að reyna að ná samkomulagi um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í móðurfélaginu, Basko, fyrir allt að 2,2 milljarða króna, sem greiddir væru að fullu með tæplega 319 þúsund hlutum í Skeljungi.

Basko fer með eignarhald á Ísland Verslun hf., sem rekur þrjár verslanir undir merkjum Iceland, Imtex ehf., og rekstrarfélagi Tíu Ellefu ehf., sem rekur 35 verslanir undir merkjum 10-11 og Háskólabúðarinnar, en það er einnig móðurfélag Drangaskers ehf. sem rekur fimm kaffihús undir merkjum Dunkin Donuts. Einnig rekur félagið eina verslun undir merkjum Inspired by Iceland og veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill.

Tekjurnar 10 milljarðar

Heildartekjur Basko námu rúmum 10 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári, heildareignirnar námu 2.360 milljónum króna og rekstrarhagnaður án afskrifta og fjármagnsliða (EBITDA) nam 309 milljónum króna. Kaupin eru þó háð ýmsum forsendum og fyrivörum beggja samningsaðila, þar á meðal að áætlaður rekstrarhagnaður og horfur í rekstri byggi á ásættanlegum forsendum að mati kaupenda eftir framkvæmd áreiðanleikakönnunar.

Einnig fyrirvörum eins og samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar, sem og að EBITDA Basko geti numið um 500 milljónum króna á ársgrundvelli þegar samlegðaráhrifin milli félaganna séu að fullu komin fram, sem áætlað er að verði innan 24 mánaða frá því að kaupin séu komin í gegn. Jafnframt eru hluthafar Basko skuldbundnir til að framselja ekki hluti í Skeljungi sem þeir fá afhenta í 18 mánuði frá afhendingu.

10-11 hefur séð um smásöluverslun fyrir Skeljung

„Árið 2014 samdi Skeljungur við Basko um rekstur verslana á helstu bensínstöðvum félagsins.  Það hefur gengið vonum framar og á grunni þeirra reynslu stígur félagið nú skrefið til fulls með kaupum á félaginu, með fulla samþættingu á eldsneytissölu, sölu á endurnýjanlegum orkugjöfum og verslun fyrir augum,“ segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs

Með kaupunum stígur Skeljungur jafnframt mikilvæg skref í frekari þróun í smásölu, sem m.a. felst í að mæta betur breytingum á kaupmynstri fólks - og sívaxandi tækifærum í sölu og þjónustu til ferðamanna, þar sem 10-11 hefur þegar sterka stöðu.  Samhliða þessu hyggst félagið jafnframt leita tækifæra til að styrkja sölu- og þjónustunet sitt um allt land. Með kaupunum myndi Skeljungur eignast eitt öflugasta þægindaverslanafyrirtæki landsins, en stjórnendur félagsins hafa áralanga reynslu í uppbyggingu og rekstri smásöluverslana. Heildarfjöldi starfsmanna sameinaðs félags yrði rúmlega 400 manns.

Eftir kaupin verður félagið byggt á fjórum meginsviðum, þ.e. smásölu, sölu til stórnotenda, eldsneytissölu til erlendra skipa og starfsemi í Færeyjum (Magn)."