Síðustu viðskiptin með hlutabréf Össurar í íslensku kauphöllinni munu fara fram 30. nóvember næstkomandi, en eftir það munu þau eingöngu fara fram í kauphöll Nasdaq Copenhagen. Kauphöll Íslands hefur fallist á beiðni Össurar um að taka hlutabréf félagsins úr viðskiptum hér á landi, en upphaflega hafði hún verið sett fram árið 2011 að því er Jón Sigurðsson forstjóri sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 10. ágúst síðastliðinn.

Með því að sameina viðskiptin á einum markaði segir félagið að seljanleiki hlutabréfanna muni aukast og verðmyndun verða virkari öllum hluthöfum til hagsbóta, en um 30% hlutafjár félagsins hafa verið í viðskiptum hér á landi, en restin í Kaupmannahöfn.

Íslendingar misstu áhugann í bólunni fyrir hrun

Jón sagði í viðtalinu á sínum tíma að íslenskir fjárfestar hafi misst áhuga á rekstrarfélögum á borð við Össur þegar allt var á suðupunkti hér á árunum 2003 til til 2004. „Þá fórum við að leita út fyrir landsteinana og fengum mjög góðar viðtökur hjá erlendum fjárfestum. Þeir fjárfestu í fyrirtækinu og voru komnir með um 60% af hlutafénu þegar allt hrundi hér árið 2008,“ segir Jón.

„Svo gerðist það að þeir gátu náttúrulega ekki stundað viðskipti með gjaldmiðli sem var ekki gjaldgengur. Erlendu hluthafarnir gerðu þá kröfu að við gerðum eitthvað í málunum. Þannig að við skráðum Össur á markað í Danmörku í september 2009 og ætluðum að afskrá félagið á Íslandi samhliða því. En kauphöllin á Íslandi ákvað að taka hlutabréf Össurar aftur til viðskipta, án samþykkis fyrirtækisins. Við vorum þvinguð í skráningu hér.

Sjónarmiðið þeirra var að ef til hlutafjáraukningar kæmi gætu íslenskir fjárfestar ekki tekið þátt í henni. En nú er því ekki til að dreifa. Við höfum ekki þurft og þurfum sjálfsagt ekki neina hlutafjáraukningu. Gjaldeyrishöftin eru farin. Þá eru nánast engin viðskipti með bréfin hér á landi. Þannig að við teljum þessa hliðarskráningu hér á landi vera barn síns tíma. Það er ástæðulaust að halda henni uppi og vonandi losnum við við hana.“

Viðskipti á Íslandi út nóvember

Síðasti viðskiptadagur með hlutabréf Össurar í Kauphöll Íslands verður 30. nóvember 2017 að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu. Sameining viðskipta í kauphöll Nasdaq Copenhagen mun svo eiga sér stað með sjálfkrafa umbreytingu hlutabréfanna 6. desember 2017. Frá þeim degi verða öll hlutabréf í Össuri eingöngu til viðskipta í kauphöll Nasdaq Copenhagen.

Hluthafar þurfa ekki aðhafast neitt og fjöldi hluta verður óbreyttur. Umbreytingin mun aðeins hafa áhrif á hluthafa sem eiga hlutabréf sem eru til viðskipta í Kauphöll Íslands.

Samtals 18 ár í íslensku kauphöllinni

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar segir félagið þakklátt fyrir þau tækifæri sem skráningin hér á landi hafi veitt fyrirtækinu. „Skráning Össurar í Kauphöll Íslands árið 1999, fyrir um 18 árum, gegndi veigumiklu hlutverki í vexti Össurar úr litlu stoðtækjafyrirtæki í leiðandi félag á heimsvísu,“ segir Jón.

„Með því að sameina viðskipti með hlutabréf Össurar í kauphöll Nasdaq Copenhagen mun seljanleiki bréfanna aukast og verðmyndun verða virkari til hagsbóta fyrir alla hluthafa Össurar."