Frumefnið platína, sem er númer sjötíu og átta, er notað í miklum mæli við framleiðslu bíla. Efnið er mikilvægur þáttur í smíðum púströra á bensínbíla, þar eð platína hefur mikla bindigetu við ýmisleg útblástursefni - og kemur þannig í veg fyrir að bílar mengi enn meira en þeir gera fyrir.

Rafmagnsbílar eru lausir við allan slíkan útblástur, enga ganga þeir fyrir rafmagni, og því mun uppgangur rafmagnsbílsins þýða vandkvæði og verðlækkanir fyrir platínuframleiðslu og -sölu. Á síðasta ári voru um það bil helmingur allrar platínu seldur til bílframleiðsluiðnaðarins. Mikið af efninu er grafið upp í Suður-Afríku og Rússlandi.

Ríkisniðurgreiðsla og annars konar hvatar ýta undir eftirspurn fólks fyrir rafbílum - en í Þýskalandi mun ríkið verja 1,4 milljarði Bandaríkjadala eða 169 milljörðum króna í niðurgreiðslur. Í Bandaríkjunum fær hver og einn kaupandi rafmagnsbíls 7.500 Bandaríkjadala skattaafslátt fyrir kaupin - tæpa milljón króna.

Á næstu tíu til tuttugu árum, spá sérfræðingar, munu bílaframleiðendur notast í mjög auknum mæli við rafmagn. Þótt hið kaliforníska Tesla Motors sé oftar en ekki rafbílafyrirtækið sem mest er fjallað um hafa framleiðendur víðsvegar um heim byrjað að veita miklu fjármagni til framleiðslu og þróunar rafbíla.

Auk Tesla Motors - sem er í eigu Elon Musk - sem hyggst hefja sölu á fólksbílnum Model 3 í lok árs 2017, þá mun Chevrolet hefja sölu á rafbílnum Volt í ár. Auk þess hafa fyrirtæki á borð við BMW og Porsche byrjað að framleiða og þróa sína eigin rafbíla. Svo má ekki gleyma Nissan Leaf, sem er vinsæll hér á landi. Um þetta hefur verið fjallað á fréttaveitu Bloomberg .