*

föstudagur, 19. október 2018
Erlent 24. nóvember 2017 12:09

Pútín krýnir sig konung OPEC

Eftir að Pútín náði samningum við OPEC um að draga úr framleiðslu er hann orðinn afar áhrifamikill.

Ritstjórn
epa

Í meira en hálfa öld gat olíumálaráðherra Saudí Arabíu hreyft við mörkuðum með nokkrum vel völdum orðum um hvað olíuhringurinn OPEC gæti ákveðið á næsta fundi sínum og þannig skapað innherjum stöðu til þess að hagnast um milljarða dala.

Sá tími er liðinn. Fundir OPEC hafa þó enn áhrif á verð olíu en það er ekki lengur rödd Saudí Arabíu sem skiptir máli heldur rödd manns hvers þjóð er ekki einu sinni fullgildur meðlimur hringsins, Pútíns. Þannig hefst frétt á fréttaveitunni Bloomberg.

Síðan að Rússar náðu samningum við olíusamráðshringinn OPEC til þess að draga úr framboði olíu fyrir um ári síðan hefur Pútín verið áhrifamesti maður hópsins. Bloomberg hefur eftir háttsettum OPEC manni að leiðtogi Rússa „taki ákvarðanirnar.“

Meiri áhrifamáttur Rússa innan OPEC er hluti af utanríkisstefnu sem er ætlað að vinna gegn árhif Bandaríkjanna í heiminum og er sambland efnahagslegra aðgerða, diplómatískra aðgerða, hernaðar og njósna. Stefnan virðist vera að virka í krafti mikilla náttúruauðlinda Rússa.

„Pútín er nú orðinn orkukeisari heimsins,“ segir Helima Croft, fyrrum greinandi hjá CIA.

OPEC mun hittast auk þeirra þjóða sem eru aðilar að samningnum, um samdrátt í framleiðslu, þann 30. nóvember en þá verða áhrif og völd Pútíns í kastljósinu. Þessar þjóðir framleiða í sameiningu um 60% af allri olíu í heiminum en fyrir margar þeirra er stór hluti þjóðarbúskaparins undir. Líklegast þykir að framleiðsluskerðingar verði framlengdar fram til ársloka 2018.