Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) hefur farið þess á leit við dómara að hann finni Elon Musk, framkvæmdastjóra Tesla, sekan um vanvirðingu gagnvart dómstólum (e. contempt of court).

Vill eftirlitið meina að Musk hafi brotið samkomulag við sig sem hafi falið í sér loforð um að bera öll tíst, sem gætu haft verðmótandi áhrif á bréf fyrirtækisins, undir yfirlögfræðing félagsins.

Musk segir í tístinu umrædda að árið 2011 hafi Tesla framleitt 0 bíla, en muni framleiða um 500 þúsund stykki í ár. Fjórum tímum síðar svaraði hann eigin tísti og útskýrði að hann hafi átt við að framleiðslan á ársgrundvelli yrði um 500 þúsund í lok árs, en spá fyrirtækisins um að um 400 þúsund eintök yrðu afhent í ár væri óbreytt.

Musk hefur átt í útistöðum við verðbréfaeftirlitið frá því síðasta haust, eftir að hann sagði frá því í tísti að hann væri að íhuga afskráningu félagsins, og sagðist hafa tryggt fyrir því fjármögnun, en það reyndist ekki fyllilega sannleikanum samkvæmt.

Í kjölfarið hóf eftirlitið mál gegn Musk og Tesla, sem lauk með samkomulagi sem meðal annars fól í sér 20 milljón dollara sekt, og það að Musk segði af sér stjórnarformennsku, sem hann gerði í nóvember. Þá fól samkomulagið einnig í sér, eins og fram kemur að ofan, að Musk bæri hugsanlega verðmótandi tíst undir lögfræðinga félagsins.

Frétt Financial Times um málið segir málið varpa nýju ljósi á afsögn yfirlögfræðings félagsins, Dane Butswinkas, eftir aðeins tvo mánuði í starfi, í síðustu viku, daginn eftir tístið umdeilda.