*

fimmtudagur, 19. apríl 2018
Innlent 3. júlí 2017 18:44

Segir AGS á villigötum

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist eiga erfitt með að átta sig á hverju AGS telur ábótavant í lögum um fjármálamarkaði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vera að sumu leyti á villigötum í nýlegri skýrslu sinni um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þetta segir Halldór í leiðara nýs fréttabréfs SA. Ástæðuna segir hann meðal annars vera þá að AGS telji nauðsynlegt að efla Fjármálaeftirlitið og auka reglubyrði og eftirlit. 

Segir hann að erfitt sé að átta sig á því hverju AGS telji ábótavant í íslenskum lögum um fjármálamarkaði sem hafi á síðustu árum tekið grundvallarbreytingum í samræmi við breytingar á evrópskri löggjöf. Valdheimildir eftirlitsins hafa verið auknar, starfsmönnum hefur fjölgað, pappírs- og skýrsluflóðið margfaldast og kostnaðurinn sömuleiðis.

„Í alþjóðlegum samanburði er Fjármálaeftirlitið hlutfallslega mjög stórt hvort sem litið er til fjölda starfsmanna, kostnaðar eða annarra mælikvarða þegar tekið er mið af umfangi fjármálageirans hér á landi í samanburði við önnur lönd," skrifar Halldór og nefnir sem dæmi að kostnaður á hvert eftirlitsskylt fyrirtæki hér á landi sé um helmingi hærri en í Svíþjóð á árinu 2016 samkvæmt nýlegri samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja. „Augljóst er að allur kostnaður við eftirlitið lendir á viðskiptavinum banka og annarra fjármálastofnana. Það eru þeir sem skulda sem bera stærsta hlutann af kostnaðinum."

Halldór segist vonast til þess að stjórnvöld taki ofangreinda þætti til skoðunar áður en farið verði af stað og eftirlit aukið enn frekar í takt við órökstudd tilmæli AGS. Þá vonast hann einnig til þess að fram fari almenn úttekt á útblásnu og ofvöxnu eftirliti með fjármálageiranum. Í því samhengi þurfi bæði að líta til Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og gjarnan megi hafa það í huga að stærstur hluti bankakerfisins sé í eigu ríkisins.