*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 8. september 2017 14:59

„Síðan-fyrir-hrun metin falla“

Greiningardeild Arion banka veltir því upp hvort að koma Costco hafi spilað rullu þegar kemur að aukinni einkaneyslu Íslendinga.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Hagstofa Íslands birti fyrr í dag þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs ársins 2017. Nokkuð dróg úr hagvexti miðað við síðustu ársfjórðunga. Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi mældist 3,4%, samaborið við 4,6% vöxt á öðrum ársfjórðungi í fyrra og 5% vöxt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Að þessu sinm var einkaneyslan dráttarklárinn en hún jókst um 9,5%, sem er mesti vöxtur á einum ársfjórðungi frá árinu 2007 að því er kemur fram í nýrri greiningu Arion banka á þjóðhagsreikningunum. 

Þar er bent á að þessu sinni voru það þrír undirliðir landsframleiðslunnar sem slógu nýtt síðan-fyrir-hrun met. Það voru undirliðirnir: Einkaleysla, samneysla og þjónustuinnflutningur. Í greiningu Arion banka er velt upp möguleikanum hvort að innkoma Costco hafi spilað rullu þegar kemur að aukinni einkaneyslu Íslendinga. Greiningardeildin tekur þó fram að hversu mikil þessu áhrif geta verið skal látið ósagt. 

 

Undirliðir fram úr væntingum

„Tölurnar draga dám af sterkri krónu, stórauknum kaupmætti og mögulega, og við ítrekum mögulega, komu Costco inn á innlendan markað. Þrátt fyrir að hagvöxtur á fjórðungnum hafi verið nokkuð minni en við reiknuðum með fóru nær allir undirliðir landsframleiðslunnar fram úr væntingum okkar. Það bendir til þess að við höfum að einhverju leyti vanmetið kraftinn í innlendri eftirspurn, sem drífur hagvöxtinn áfram um þessar mundir. Á móti vegur að vöxtur útflutnings var nokkuð minni en við höfðum áður áætlað, sem rekja má til minni vaxtar í þjónustuútflutningi, öðrum en ferðaþjónustu, en við höfðum spáð,“ segir meðal annars í umfjöllun greiningardeildar Arion banka. 

Stikkorð: Arion banki einkaneysla met Costco falla greinignardeild