Greinendur hjá Íslandsbanka spá því að hækkun íbúðaverðs á þessu ári muni nema um 8,2% að meðaltali frá síðasta ári. Hækkun næsta árs mun nema 5,5% að meðaltali og um 4,4% árið 2020. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn.

Verðmæta aukning húsnæðiseigenda umtalsverð

Húsnæðiseign myndar um 78% af heildareignum Íslendinga og því kemur hækkun húsnæðisverðs sér vel fyrir marga. Áætlaðar eignir heimilanna nema rúmlega 7.400 milljörðum króna og heildarhúsnæðiseign heimilanna er um 5.700 milljarðar króna. Hrein verðmætaaukning heimilanna nemur um 1.500 milljörðum króna, áætlað er að hækkandi húsnæðisverð hafi skilað landsmönnum ríflega 184 milljörðum króna ár hvert í núverandi uppsveiflu.

„Frá árinu 2010 hefur raunverð íbúða hækkað um 56%. Þegar er búið að leiðrétta fyrir verðbólgu þegar talað er um raunverð og hefur húsnæðisverð því hækkað 56% umfram almennt verðlag og þar af leiðandi umfram hækkunaráhrif verðbóta á höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna," segir í skýrslunni.

Einnig kemur fram að frá árinu 2010 hefur raunverð íbúða hækkað um 56% og eigið fé heimilanna hefur aukist um 2.051 milljarð króna eða um 96%. Á sama tímabili nema vaxtagjöld að frádregnum vaxtabótum vegna íbúðalána 575 milljörðum króna eða um 72 milljörðum á ári.

Talið er að fólk í foreldrahúsum sem og leigjendur hafi setið eftir  á meðan auðsöfnun hefur fallið í hlut húsnæðiseigenda.

Í góðu jafnvægi í alþjóðlegu samhengi

Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað umfram laun að undanförnu. Þetta ástand á einnig við hjá a.m.k. 15 aðildarþjóðum OECD . Í tilfelli 13 af 15 þjóðum er ójafnvægi í íbúðaverðs- og launaþróun meira en hér. Það er því erfiðara að kaupa íbúð víðast hvar erlendis en hér á landi miðað við laun.

„Meðalfermetraverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu er um 447 þús. kr. um þessar mundir. Til samanburðar er meðalfermetraverð íbúða á landsbyggðinni um 259 þús. kr. Er því næstum tvöfalt álag ( 1,7x ) á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu m.v . íbúðaverð á landsbyggðinni að meðaltali."

Flestir á leigumarkaði af illri nauðsyn

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er mun hærra á höfuðborgarsvæðinu heldur en annars staðar og hefur ekki verið hærra en frá árinu 2011. Næst hæst er leiguverð á suðurnesjum en það er lægst á á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Leiguverð hér á landi hefur hækkað töluvert umfram tekjur á síðastliðnum árum, sé miðað við leiguverð á höfuðborgarsvæðinu og ráðstöfunartekjur stærsta hóps leigjenda.

Hér á landi eru hlutfallslega fleiri leigjendur sem glíma við fjárhagslega örðugleika heldur en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Raunverð smærri íbúða er um þessar mundir í sögulegu hámarki þannig erfitt getur reynst fyrir ungt fólk að koma inn á markaðinn, sérstaklega í ljósi þess að ungt fólk í atvinnulífinu hefur ekki notið sömu kjarahækkunar og þeir sem eldri eru.

Þar sem flestir á leigumarkaði eru annað hvort ungt fólk eða lágtekjuhópar hefur kaupgeta og hæfni leigjenda til að spara skerst. Yfirgnæfandi meirihluta leigjenda eða um 90% telja það óhagstætt að vera á leigumarkaðnum, stór hluti þeirra væri heldur til í annað búsetuform og er á markaðnum af illri nauðsyn. Þá er hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi leigukostnað hér á landi hærra en víðast hvar annars staðar.

„Hlutfall aðila sem búa við íþyngjandi leigukostnað er 17% hér á landi en það er til að mynda um það bil tvisvar sinnum hærra í Danmörku, Noregi og í Bretlandi. Þá er það um 9 prósentustigum hærra að meðaltali hjá aðildarþjóðum ESB," segir í skýrslunni.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér .