Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 30. september næstkomandi. Kemur þetta fram í Morgunkorni Greiningar. Muni nefndin að mati Greiningar rökstyðja ákvörðunina með því að benda á að verðbólguhorfur hafi batnað talsvert frá síðasta fundi nefndarinnar vegna hækkunar á gengi krónunnar og fleiri þátta. Á móti vegur m.a. kröftugur hagvöxtur, talsverð undirliggjandi kostnaðarverðbólga og minna aðhald í ríkisfjármálum á næsta ári en á þessu ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga.

Í Morgunkorninu segir að verðbólguhorfur séu mun betri en nýjasta verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst hljóði upp á. Sú spá hafi verið of svartsýn á áhrif kjarasamninga á verðbólgu næsta kastið, en auk þess hafi gengi krónunnar þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir í spánni. Byggir spá bankans á því að gengisvísitalan haldist föst út spátímabilið frá spádegi í 205,4 stigum. Nú er gengisvísitalan hins vegar 194,5 stig, og hefur gengi krónunnar því styrkst um 5,6% á þann kvarða frá því að Seðlabankinn gerði verðbólguspá sína. Hefur þetta umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina, að mati greiningar, vegna þess hvað stór hluti neyslukörfunnar er innfluttur beint eða óbeint.

Kröftugur hagvöxtur mældist á fyrri árshelmingi samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti 11. september sl. Samkvæmt tölunum mældist hagvöxturinn 5,2%, en svo mikill hefur hagvöxtur ekki mælst á fyrri árshelmingi síðan á hinu umdeilda ári 2007. Er vöxturinn talsvert umfram það sem Seðlabankinn spáir fyrir árið í heild í sinni nýjustu hagspá, en í spánni sem hann birti samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst gerði hann ráð fyrir 4,2% hagvexti í ár.