Lög um breytingar á lögum um gjaldeyrismál, tóku gildi 21. október 2016. Þau miða að losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki. Þær meginbreytingar sem gerðar eru á lögunum fela í sér auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa og gjaldeyrisviðskipta, svo og afnám tiltekinna takmarkana sem gilt hafa um fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti. Hluti þeirra breytinga sem samþykktar voru taka gildi strax, en aðrar taka gildi hinn 1. janúar 2017. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands .

Þessar breytingar eru liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var 8. júní 2015. Með þessum breytingum eru stigin veigamikil skref í fullri losun hafta.

Bein erlend fjárfesting ótakmörkuð en háð staðfestingu SÍ

Helstu breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem taka gildi í dag eru þær að bein erlend fjárfesting er ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Ísland. Fjárfesting í fjármálagreningum útgefnum í erlendum gjaldeyri er heimil að jafnvirði 30 milljónum króna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Einnig verður einstaklingum heimilt að kaupa eina fasteign erlendis óháð tilefni og kaupverði. Heimild til kaupa á erlendum gjaldeyri vegna ferðalaga erlendis hækkar úr 350.000 kr. á mánuði í 700.000 kr.; nú vegna hverrar ferðar. Skilaskylda erlends gjaldeyris vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til að kaupa fasteign, faratæki eða vegna fjárfestinga erlendis er afnumin. Ýmsar sértækar takmarkanir eru afnumdar eða rýmkaðar, m.a. heimildar til að kaupa ferðagjaldeyri.

Heimildir SÍ til upplýsingaöflunar rýmkaðar

Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar á grundvelli hlutverka hans sem seðlabanka eru rýmkaðar í því skyni hann geti aflað upplýsinga sem auðvelda bankanum að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika eftir að fjármagnshöft hafa verið losuð.