Hagnaður TM á öðrum ársfjórðungi 2016 var 1,2 milljarður. Hagnaður á sama tíma í fyrra nam 481 milljónum. Hagnaður fyrir tekjuskatt hefur jafnframt aukist um 785 milljónir milli ára.

Eigin iðgjöld hjá TM hækkuðu úr 3,1 milljarð og upp í 3,5 milljarða miðað við sama tíma og í fyrra.

Tjónakostnaður hjá fyrirtækinu lækkar úr 2,3 milljörðum í  2,2 milljarða frá því í fyrra. Einnig hækka fjármunatekjur úr 616 milljónum á sama tíma í fyrra upp í rúmlega 1 milljarð.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir Sigurði Viðarssyni forstjóra TM að hann telji afkomuna mjög góða. Hún var í raun betri en forstjórinn bjóst við og telur hann hagnaðinn meðal annars stafa af hækkun eigin iðgjalda og fjárfestingatekna ásamt því að tjónakostnaður hafi lækkað.