*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 27. október 2017 12:43

Verðbólguskot í október langt umfram spár

Greinandi hjá Arion banka telur fyrirtæki vera farin að setja kostnaðarhækkanir í meira mæli út í verðlag.

Höskuldur Marselíusarson
Aðsend mynd

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% í október frá fyrri mánuði, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Hækkaði vísítalan í 446,7 stig en án húsnæðis hækkaði hún í 386,1 stig, sem er hækkun um 0,63%.

Athyglisvert er að reiknuð húsaleiga lækkar samkvæmt þessum tölum í fyrsta sinn síðan í júnímánuði árið 2015, eða um 0,22%, en með kostnaði við viðhaldi og annað slíkt hækkar húsnæðisliðurinn í heildina.

Um er að ræða töluvert meiri verðbólgu en helstu greiningardeildir bankanna og annarra spáðu, en Landsbankinn hafði spáð 0,2% hækkun í mánuðinum en IFS Greining sem og hvort tveggja Íslandsbanki og Arion banki spáðu 0,3% hækkun.

Costco áhrifin ganga til baka

Valdís Gunnarsdóttir í greiningardeild Arion banka segir það vera spurning hvort Costco áhrifin séu að ganga til baka en mest hækkun er í mat og drykkjarvörum, eða um 1,9% sem ekki hafi verið reiknað með þó bankinn hafi spáð eilítilli hækkun þar.

„Einnig gætu launahækkanirnar sem voru á síðasta ári verið að skila sér út í verðlagið, eða hvort þetta séu seinkuð áhrif af gengisveikingunni sem við sáum í sumar,“ segir Valdís sem ekki vill taka afstöðu til þess hvort inni í þessu sé einhverjar áhyggjur af niðurstöðum komandi kosninga og væntanlegra skattahækkana frá nýrri ríkisstjórn.

„Ef maður kíkir á fjárlögin eins og þau eru í dag þá er reiknað með auknu álagi í janúar þegar auknir skattar og álögur koma inn, en það sem hjálpar í janúar eru janúarútsölurnar, þær vega svolítið á móti.“

Valdís segir að töluverð umræða hafi verið um það að langvarandi áhrif verðbólgu, gengis og launa hefðu verið kippt úr sambandi hér á landi vegna aukinnar samkeppni en það virðist ekki lengur vera jafn skýr merki um það.

„Við erum að sjá að pressan sem verið hefur lengi á verðlagið virðist vera að hverfa, fyrirtækin virðast ekki lengur geta staðið í stað og séu farin að setja launahækkanir og aukinn framleiðslukostnað út í verðlagið.“

Spurð hvort kosningaskjálfti gæti spilað þar inn í segist hún ekki þora að segja til um það.

„Það getur náttúrulega verið, þetta eru tölur sem koma okkur öllum á óvart.“