Að sögn Ragnheiðar Agnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Tryggingamiðstöðvarinnar, eru lekamál og hláka meðal flestra tilkynntra tjóna eftir ofsaveðrið í nótt.

Vestmannaeyjar fóru einna verst út úr veðrinu, ef marka má tjónatilkynningar til TM. Veðrið fór helst yfir strjálbýl svæði, þar sem mesti ofsinn reið yfir ákveðin svæði á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Rafmagn fór svo einnig af á Akureyri og enn er unnið að því að koma því aftur í gang.

„Þetta var skellur, en tilfinningin er sú að þetta sé ekki eins og í mars,” segir Ragnheiður í viðtali við Viðskiptablaðið.

Höfuðborgarsvæðið fór heldur betur úr þessu veðri en í mars síðastliðinn, en eins og margir muna eflaust eftir reið yfir mikið óskapaveður þann 14. mars 2015.

Ragnheiður segir líklegt að liggja muni fyrir í kringum helgi hversu margar tjónatilkynningar voru í kringum fárviðrið og hversu miklar fjárhæðir um ræðir.