Aðalatriðið sem hafa verður forgang við allar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu er að þær séu gerðar í sátt við almenning í landinu, sérstaklega sjómenn og fiskverkafólk í sjávarbyggðunum, en margir stjórnmálamenn hugsa um það eitt að njóta vinsælda og gera hvað sem er til að njóta þeirra, jafnvel þó það kosti okkur öll verri lífskjör. Þetta er sorgleg staðreynd, sem flest hagsmunasamtök hafa séð í gegnum, en engu að síður halda menn áfram að níða skóinn af útgerðarmönnum, án þess að gera minnstu tilraun til að segja þjóðinni hvað muni taka við, ef sjávarútvegurinn verður þjóðnýttur. Reynslan hefur sýnt okkur að slíkar breytingar hefðu fjöldagjaldþrot í för með sér og efnahagslegt hrun með tilheyrandi fátækt. Hugmyndir vinstristjórnarinnar um ríkis- og leigupottakerfi eru ekkert annað en sjónhverfingar lánlausrar ríkisstjórnar á síðustu metrunum fyrir kosningar gerðar til þess að reyna að auka sér fylgi. Þessi tilraun er sósíalísk forsjárhyggja af fyrstu gráðu og hefði sómt sér vel í Sovétríkjunum sálugu.

Hægri grænir, flokkur fólksins vill skoða nýjar hugmyndir um sátt í sjávarútvegsmálum. Vörpum við hér fram hugmynd um að breyta strandveiða- og byggðakvótakerfinu í nýtt staðbundið dagakerfi í sjálfstætt kerfi til hliðar við hið almenna kvótakerfið. Þetta nýja dagakerfi myndi leyfa frjálsar handfæraveiðar gegn sanngjörnu löndunargjaldi sem myndi renna til viðkomandi sveitarfélags. Þessar veiðar gætu miðast við báta undir vissum tonnafjölda sem stunda dagróðra frá mánudegi til fimmtudags. Þetta er staðbundið kerfi og í stað aflamagns yrði notast við bátafjölda í hverju sjávarplássi. Setja yrði hámarksfjölda báta á hverjum stað og ekki væri hægt að selja leyfin frá plássinu. Viðkomandi sjávarpláss þyrfti af hafa vinnslu og frystihús á staðnum. Frjálst handfæraleyfi gæti síðan gengið kaupum og sölum og hver útgerð miðaðist við 1 bát með tvær handfærarúllur. Trillukarlar, trilluútgerð og smábátaútgerð er partur af íslenskri sjávarplássmenningu og yrði það mikill sjónarsviptir ef slík útgerð legðist af.

Við viljum pólitísk afskipti burt úr greininni. Við getum kallað þetta „Einyrkjakerfið“.

Á Íslandi hefur verið byggt upp grænt fiskveiðistjórnunarkerfi til að tryggja ábyrgar fiskveiðar sem fela í sér viðhald fiskistofna og góða umgengni um vistkerfi hafsins. Íslendingar hafa verið virkir á alþjóðavettvangi um málefni hafsins varðandi sjálfbæra nýtingu auðlinda. Litið er á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem fyrirmynd um hvernig unnt er að stjórna veiðum á takmörkuðum auðlindum með hagkvæmum og sjálfbærum hætti. Sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar í starfsemi sinni með stóraukinni verðmætanýtingu, auknum virðisauka í framleiðslu, öflugri markaðssetningu fiskafurða. Hagræðing í greininni hefur verið mikil á öllum sviðum. Hagkvæmni fiskveiða á Norðurlöndunum er mest á Íslandi samkvæmt skýrslu norsku sjávarútvegsstofnunarinnar Nofima. Verðmætasköpun í fiskveiðum er álíka mikil og í Noregi, þrátt fyrir að afli Norðmanna sé tvöfalt meiri, bæði hvað varðar verðmæti og magn.

Í skýrslunni segir að mikil arðsemi í íslenskum sjávarútvegi ráðist meðal annars af fiskveiðistjórnunarkerfi sem hvetji til aukinnar hagkvæmni. Íslenski flotinn skili svipaðri rekstrarniðurstöðu og norski flotinn, þótt afli Norðmanna sé tvöfaldur á við hinn íslenska og veltan sömuleiðis. Í Noregi og á hinum Norðurlöndunum eru líka meiri skil á milli veiða og vinnslu en á Íslandi, þar sem útgerð og fiskvinnsla er oft á sömu hendi. Þetta leiði til meiri samhæfingar og aukinna gæða í íslenskum sjávarútvegi. Þá flytji Norðmenn til að mynda út meira af ó- eða lítt unnum fiski en Íslendingar.

Verðmætasköpun hvers sjómanns á Íslandi er um átján milljónir íslenskra króna á ári, sem er um fimmtíu prósentum meira en verðmætasköpun norskra, danskra eða færeyskra sjómanna.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og eiga fjölmörg fyrirtæki teljandi hluta af viðskiptum sínum við sjávarútveginn. Í fyrra störfuðu 9000 manns við veiðar og vinnslu hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Hagrannsóknir benda til að sjávarútvegurinn standi undir með beinum eða óbeinum hætti undir 25.000 störfum. Fyrirtæki sem skipta m.a. við sjávarútveginn eru úr ýmsum greinum atvinnulífsins s.s. málm-, véla- og viðgerðaverkstæði, heildmatvöru- og umboðsverslanir, rafmagn-, eldsneyti-, gas og hitaveitur.

Allar náttúruauðlindir sem eru í þjóðareigu og áætlanir sem liggja fyrir um nýtingu þeirra eiga að vera leigðar út í takmarkaðan tíma. Komið verði á fót sérstökum auðlindasjóði og þjóðhagsleg framlegð verði hámörkuð. Hækka ber veiðigjaldið hóflega og tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 40% renni í ríkissjóð, 40% til sjávarbyggða og 20% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi. Efnahagslögsagan er verðmætasta eign okkar Íslendinga og það á að vera forgangsatriði að ganga um hana af meiri virðingu en stjórnmálamenn gera.