Bandarísk fyrirtæki eru farin að íhuga hvort það væri ekki sniðugt að taka sér kaffipásur með sama hætti og Svíarnir. Í Svíþjóð, líkt og á mörgum vinnustöðum á Íslandi, er hefð fyrir því að starfsmenn taki sér pásu 1-2 á dag og fái sér kaffi og bakkelsi yfir rólegu spjalli.

Kaffipásan kallast á sænsku fika og segja vinnuveitendur þar í landi að hefðin hjálpi við að auka framleiðni og bæta vinnustaðamenningu.

Bandaríska fyrirtækið The Grand, sem er með höfuðstöðvar sínar í New York, kallar nú alla 10 starfsmenn sína á Zoom-fund annan hvern föstudag til að spjalla með kaffibolla í hendi. Breska fyrirtækið Hubble hefur einnig tekið upp á þessari hefð eftir að ráðið sænskan starfsmann.

Þrýstingurinn til að gera slíkar breytingar er þó sérstaklega mikill í Bandaríkjunum en þar segjast starfsmenn sýna vinnu sinni mun minni áhuga en fyrir heimsfaraldur að sögn Gallup.

Þar að auki hafa tengsl starfsmanna við hvorn annan orðið erfiðari í ljósi þess að sífellt fleiri kjósa að vinna heima. Sumir vinnuveitendur hafa áhyggjur af skorti á félagslífi innan skrifstofunnar sem gæti skaðað vinnustaðamenningu og starfsemi fyrirtækja.

„Það að læra meira um ástríður þeirra og hæfileika hjálpar mér að skilja þau betur og vinna með þeim“

Á skrifstofum Grand í New York skiptast starfsmenn á að koma með gotterí og leiða frjálslegar samræður eða spila borðspil. Rei Wang, stofnandi fyrirtækisins, segir að fika-kaffipásan gefi henni tækifæri til að eyða meiri tíma með starfsfólki sínu, sem gerir hana að betri leiðtoga.

„Það að læra meira um ástríður þeirra og hæfileika hjálpar mér að skilja þau betur og vinna með þeim,“ segir hún.

Fika við sænska sendiráðið í Washington DC.
© Samsett (SAMSETT)

Sænska sendiráðið í Washington heldur þessa kaffipásu hátíðlega einu sinni í viku og má líka finna svipaða hefð í sænskum fyrirtækjum eins og IKEA.

„Fika er þar sem við tölum um lífið og allt sem tengist ekki vinnu. Hefðin hjálpar líka við að þróa það sem kallast trivsel, hugtak sem táknar sambland af ánægju á vinnustað og velgengni. Hugmyndin er svo víðtæk fyrir sænska vinnustaði að mörg fyrirtæki í Svíþjóð hafa sérstakar trivsel nefndir,“ segir Micael Dahlen, prófessor í vellíðan, velferð og hamingju við háskólann í Stokkhólmi.