Kvikmyndin Barbie með Margot Robbie og Ryan Gosling kemur nú í bíó á miðvikudaginn og bíða eflaust margir kvikmyndaunnendur og leikfangaaðdáendur spenntir eftir því að sjá hana.

Fyrsta Barbie dúkkan fór á markað þann 9. mars 1959 en hún heitir réttu nafni Barbara Millicent Roberts, eða bara „Barbie“. Hún var framleidd af bandaríska leikfangafyrirtækinu Mattel, Inc. en er sögð hafa fengið innblástur sinn frá þýsku dúkkunni Bild Lilli.

Barbie og vinur hennar Ken eru án efa vinsælustu og best seldu dúkkur í heiminum en síðan varan fór á markað hefur hún umturnað stórum hluta leikfangaiðnaðarins. Mikil eftirspurn varð til eftir leikföngum og aukahlutum, svo sem bílum, fötum og nýjum vinum og ættingjum fyrir dúkkuna.

Saga Barbie

Saga Barbie byrjaði með bandarísku konunni Ruth Handler sem tók eftir því að dóttir hennar, Barbara, hafði mjög gaman að leika sér með pappírs dúkkur og var hún dugleg að gefa þeim fullorðins hlutverk. Á þeim tíma voru flestar dúkkur sem börn léku sér með einnig „barnadúkkur“.

Ruth áttaði sig á því að hér gæti verið tækifæri til að koma með eitthvað nýtt inn á markað og stakk hún upp á því að búa til „fullorðins dúkku“. Eiginmaður hennar, Elliot, var nefnilega meðstofnandi leikfangafyrirtækisins Mattel en hvorki honum né stjórn Mattel leist vel á hugmyndina til að byrja með.

Árið 1956 fór Ruth í frí með börnin sín til Evrópu og þar rakst hún á þýsku dúkkuna Bild Lilli. Fullorðinsdúkkan var nákvæmlega það sem Handler hafði í huga og ákvað hún að kaupa þrjár slíkar dúkkur. Hún gaf dóttur sinni eina og fór með hinar tvær til Mattel. Dúkkan hét Lilli en var byggð á teiknimyndapersónu sem birtist í dagblaðinu Bild og kom þar nafnið „Bild Lilli“.

Þýski forveri Barbie (til vinstri) og Charlotte Johnson, fyrsti fatahönnuður Barbie
© Samsett (SAMSETT)

Ruth endurgerði dúkkuna með samstarfsmanni sínum, Jack Ryan, og fékk hún þá nafnið Barbie, í höfuðið á dóttur Ruth. Dúkkan var frumsýnd á alþjóðlegu leikfangaráðstefnunni í New York þann 9. mars, 1959 og er sú dagsetning einnig sögð vera afmælisdagur dúkkunnar.

Dúkkan varð strax mjög vinsæl en fór að breytast með tímanum. Árið 1980 kom til að mynda fyrsta svarta Barbie dúkkan og var einnig hægt að fá suður-amerískar vinkonur fyrir Barbie. Árið 2018 í tilefni Alþjóðlegrar baráttudegi kvenna ákvað Mattel að gera 17 nýjar dúkkur sem byggðust á sögufrægum konum eins og Ameliu Earhart, vísindakonunni Katherine Johnson og nokkrum frægum íþróttastjörnum.

Alveg frá byrjun hefur Barbie hins vegar verið umdeild og hefur dúkkan sérstaklega verið gagnrýnd fyrir að gefa ungum stúlkum óraunhæfa útlitsímynd. Það var lengi kvartað yfir því að Barbie væri of horuð og árið 1997 var Barbie breytt og henni gefið stærra mitti. Árið 2016 komu svo nýjar Barbie dúkkur á markað sem voru með mismunandi útlit og var þá hægt að kaupa „hávaxna“ Barbie, „litla“ Barbie eða „sveigða“ Barbie.

Mattel áætlar að um heim allan megi finna í kringum 100.000 einstaklinga sem safna Barbie dúkkum af fullri alvöru. Áætlað er að um 90% þeirra séu konur og er meðalaldur þeirra um fertugt. Talið er að þær kaupi um 20 dúkkur á hverju ári og rúmlega 45% eyða meira en þúsund Bandaríkjadali í þessa geysivinsælu dúkku, sem byrjaði sem hugmynd frá einni konu.