Origo hélt ráðstefnu á Hótel Natura um gagnadrifin fyrirtæki og hvernig hægt er að nýta gögn til að ná betri árangri og tryggja að „lykillinn sé ekki skilinn eftir í skránni“.

Samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni þá ber fyrirtækjum skylda til þess að nota tæknibúnað til að dulkóða persónuleg gögn og sjá til þess að lykillinn að dulkóðuninni sé geymdur á öðrum stað en gögnin sjálf.

„Á þessu er mikil brotalöm því aðeins 14% fyrirtækja segjast stjórna sjálfir dulkóðunarlyklum fyrir þær skýjalausnir sem þeir eru að nota og að meðaltali eru aðeins 45% viðkvæmra gagna dulkóðuð,“ sagði Kaare Maartensen, öryggisráðgjafi hjá hinu alþjóðlega fyrirtæki Thalesgroup, en hann var einn af ræðumönnum ráðstefnunnar.

Í tilkynningu segir að mörgum hafi brugðið þegar Kaare lýsti hvernig venjulegur maður gæti vaknað upp við það að vera orðinn bankaræningi

„Þú gætir heyrt þína eigin rödd skipuleggja bankarán í símtali og séð þig á myndskeiði ráðast inn í banka til að ræna hann. Slík gögn gætu síðan farið eins og eldur um sinu á netinu og orðið til þess að lögreglan bankaði upp á hjá þér, því með gervigreind er auðvelt að falsa gögn.“

Kaare segir að nauðsynlegt sé að geta rakið uppruna gagna ef svo ber undir og verja þannig persónuleg gögn með tryggri dulkóðun. Stjórnendur gleymi oft að ábyrgðin um öryggismál hvíli fyrst og fremst á fyrirtækjunum sjálfum en ekki þeim aðilum sem hýsa og geyma gögnin.