Brasilíska ríkið sekkur sífellt dýpra í skuldafen, en hlutfall skulda miðað við verga landsframleiðslu (VLF) nemur nú 67%. Auk þess er ríkið rekið með gífurlegum halla á ári hverju, en hallinn stigmagnast í takt við skuldsetningu ríkisins - og er orðinn um 10% af VLF Brasilíu. Til hliðsjónar má nefna að 3,8% samdráttur varð á hagkerfi Brasilíu á síðasta ári.

Verðbólga þarlendis stendur í ríflega 11%, og mögulegt er að óðaverðbólgan sem einkenndi níunda áratuginn - verðbólga árið 1993 var 2477 % - gæti dúkkað upp á ný ef ríkisstjórnin byrjar að prenta peninga til að greiða niður skuldir sínar.

Greiðslufallstryggingar sífellt dýrari

Gengi greiðslufallstrygginga brasilíska ríkisins náði hápunkti í september á síðasta ári, en eftir að lækka tímabundið hefur gengið farið vaxandi með tímanum. Samkvæmt gengi trygginganna er reiknað mat fjárfesta á líkum þess að ríkið geti ekki borgað skuldir sínar um það bil 8,5% árlega.

Til hliðsjónar má nefna að gengi greiðslufallstrygginga ríkja á borð við Bandaríkin, Danmörku eða Bretland benda til að árlegt líkumat greiðslufalls sé rétt yfir 0%. Nánari tölur um gengi greiðslufallstrygginga má finna á síðu greiningardeildar Deutsche Bank .

AGS eina leiðin út

Í viðtali við Telegraph segir Ernesto Talvi, forstjóri suður-ameríska greiningarfyrirtækisins Brookings-CERES, að besti kostur brasilíska ríkisins sé að fá bjargræðispakka frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

„Þau hafa ekkert val,” segir Talvi. „Fyrr eða síðar gera þau sér grein fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þeirra eina undankomuleið. Fjárfestar eru nú þegar óttaslegnir, og ef eitthvað kemur upp á gætu þeir flúið brasilíska markaði.”

Að mati Talvi myndi tveggja ára lánapakki frá AGS gera ríkisstjórninni kleift að kæfa krísuna í fæðingu. Þá myndi ríkið geta greitt niður skuldir sínar og minnkað hallann nægilega mikið til að stýra ríkinu frá greiðslufalli.