Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt bandaríska seðlabankann til að fresta vaxtahækkunum fram á næsta ár, að því er segir í frétt BBC. Óvenjulegt er að AGS beiti sér með þessum hætti þegar kemur að efnahagsmálum vestra.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, segir seðlabankann eiga að bíða þar til skýrari merki sjáist um hækkun launa eða verðlags. Segir í skýrslu AGS að enn sjáist veikleikamerki í bandaríska hagkerfinu.

Vegna þess að ákvörðun seðlabankans myndi hafa alþjóðleg áhrif segir í skýrslunni að nauðsynlegt hafi þótt að hafa samband við bandaríska seðlabankann og koma þessum áhyggjum áleiðis. Almennt hafa markaðsaðilar búist við vaxtahækkun í Bandaríkjunum á þessu ári.