Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur undanfarnar tvær vikur dvalið hér á Íslandi og fundað með fulltrúum stjórnvalda og Seðlabankans. Í lok heimsóknarinnar afhenti sendinefndin yfirvöldum lokayfirlýsingu sína.

Í henni segir meðal annars að útlit væri fyrir að góður árangur í efnahagslífinu héldi áfram eins og fyrr hefur, og að hagvöxtur til meðallangs tíma stefni í 2,5%.

Þó sé áhætta á því að kollsteypa verði í efnahagslífinu. Almenn krafa um aukin útgjöld ríkisins hafi þá verið hávær eftir aðhaldsár - og ef hin nýlega uppstokkaða ríkisstjórn, eða spánný ríkisstjórn í kjölfar kosninga, sækist eftir því að afla sér vinsælda með auknum útgjöldum gæti hagkerfið þanist hratt út, með tilheyrandi áhættu um kollsteypu.

Sendinefndin segir þá einnig að þörf sé á auknu aðhaldi peningastefnu Seðlabankans. Þá sé fyllilega rétmætt að Seðlabankinn sé reiðubúinn til þess að hækka vexti enn frekar og festa aukinn trúverðugleika í sessi - en þó aðeins í samræmi við mælingar og gögn. Þá sé einnig líklegt að launahækkanir munu þrýsta verðbólgu upp fyrir markmið á næstu mánuðum.

Þá þurfi að taka á frekari losun hafta með varúð. Heimila þurfi aukna erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða samtímis því að ráðstafanir séu gerðar sem efla stjórnarhætti og bæta áhættustýringu lífeyrissjóða.

Nefnd AGS snerti þá einnig á því að mikilvægt væri að huga varlega að sölu bankanna. Gæta þurfi að því að arðgreiðslur skerði ekki um of lausafé bankanna, og að ekki eigi að hraða einkavæðingu um of en leggja þess í stað áherslu á að finna trausta kaupendur, helst erlenda banka með gott orðspor.

Listi sendinefndarinnar um ástandið og hvað mætti gera í heild sinni er svohljóðandi:

  1. Útlit er fyrir áframhaldandi góðan árangur í efnahagslífinu og að hagvöxtur stefni í 2,5% til meðallangs tíma.
  2. Mesta áhættan gæti verið önnur kollsteypa eftir ofþenslu eins og áður hefur þekkst .
  3. Heildstæð lög um opinber fjármál koma á heppilegum tíma til að viðhalda aga í ríkisfjármálum.
  4. Endurskipulagning á ramma kjarasamninga er forsenda efnahagslegs stöðugleika.
  5. Líklegt er að þörf verði á auknu aðhaldi peningastefnunnar.
  6. Rammi peningastefnunnar nyti góðs af skýrum línum varðandi inngrip á gjaldeyrismarkaði.
  7. Frekari losun hafta þarf að framkvæma með varúð.
  8. Stefna stjórnvalda þarf að taka mið af vaxandi þátttöku ríkissins í bankakefinu.
  9. Mikilvægt er að efling þjóðhagsvarúðartækja haldi áfram af krafti og aukin valddreifing í þessu tilliti væri til bóta.