Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 221,3 milljörðum króna og hækkar um 3,6% frá fyrra ári. Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2009 er 267.494. Fjölgun milli ára var 1,0%, sem er mun minni fjölgun en verið hefur undanfarin ár.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins en álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni fyrir árið 2009 liggur nú fyrir.

Um er að ræða endanlega álagningu á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og útsvari á tekjur ársins 2008, en meginhluti álagningarinnar hefur þegar verið innheimtur í formi staðgreiðslu eða fyrirframgreiðslu á árinu 2008.

Almennan tekjuskatt, 98,6 milljarða króna greiða 179.500 einstaklingar eða 75% þeirra sem höfðu jákvæðan tekjuskatts- og útsvarsstofn. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur að meðaltali hækkað um 6,7% milli ára. Skatthlutfallið nam 22,75% og var óbreytt milli ára en persónuafsláttur hækkaði um 5,9% frá fyrra ári.

Þá kemur fram að útsvar til sveitarfélaga nemur alls 108,7 milljörðum króna og hækkar um 6,7% frá fyrra ári. Gjaldendur útsvars eru 257.000, nær jafn margir og árið áður. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 6,2% milli ára.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins .