„Eftir á að hyggja er ég bara ánægður að við stóðum með sjálfum okkur og okkar sannfæringu,“ segir Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs um að hafa verið eini lífeyrissjóðurinn sem sýndi leigufélaginu Heimavöllum, í dag Heimstaden, áhuga á sínum tíma.

„Það er auðvitað alltaf þægilegra að fylgja fjöldanum en að fara sínar eigin leiðir og eiga á hættu að enda einn í sviðsljósinu ef illa fer,“ segir hann og nefnir dæmi af því þegar stjórnendur sjóðsins voru gagnrýndir á ársfundi fyrir að eiga í leigufélaginu.

„Við vorum bara að fylgja okkar fjárfestingastefnu og töldum að þetta væru góð kaup. Við erum ekki mikið að velta því fyrir okkur hvað aðrir gera hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða aðrir fjárfestar. Við reynum bara að fylgja eigin sannfæringu.“

Ágætis staðfesting á kostum félagsins sem fjárfestingu

Birta var einn stærsti hluthafi Heimavalla þegar norska leigusamstæðan yfirtók félagið vorið 2020. Sjóðurinn verður senn hluthafi félagsins á ný því á dögunum var samið um að Birta ásamt 14 öðrum lífeyrissjóðum kaupi allt hlutafé Heimstaden á Íslandi út úr samstæðunni.

Ólafur fagnar sinnaskiptum kollega sinna gagnvart leigufélaginu og segir góða þátttöku og umframeftirspurn í útboði SRE III slhf. – sem stendur fyrir kaupunum og kemur til með að reka Heimstaden fyrir hönd eigenda þess – ágætis staðfestingu á þeim kostum sem Birta hafi alla tíð séð í félaginu sem fjárfestingakosti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.