Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í stöðuuppfærslu á Fasbók að vel sé hægt að bregðast við erfiðri skuldastöðu Reykjanesbæjar. Eðlilegast sé að bregðast við henni með því að endurskoða reksturinn, styrkja efnahagsreikning bæjarins og leita leiða til að auka tekjurnar.

Á kynningu skýrslu KPMG um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar í gær kom fram að skuldir bæjarins séu yfir 40 milljarðar króna og námu þær 248% af tekjum ársins 2013. Bæjarfélagið hefur um árabil verið skuldugasta sveitarfélag landsins.

Árni segir að þau tólf ár sem hann gegndi starfi bæjarstjóra hafi verið barátta upp á hvern dag. Skuldahlutfallið árið 2002 hafi verið 250% og hafi bærinn síðan gengið í gegnum stærstu atvinnuuppsagnir Íslandssögunnar þegar Varnarliðið hvarf á braut á aðeins sex mánuðum. Ári síðar hafi efnahagskreppan skollið á.

Segir bæjarstjórinn fyrrverandi að allir séu sammála um að á þessum tíma hafi bærinn umbylst og sé nú í takti við mest aðlaðandi sveitarfélögin. Þrátt fyrir atvinnumissi hafi íbúum fjölgað stöðugt með þörf fyrir skóla og þjónustu. Vegna atvinnutafa hafi ekki tekist að ráða bug á atvinnuleysinu. Það hafi kostað bæinn gríðarlegar fjárhæðir.

Árni bendir á að lán að baki uppbyggingunni hafi reynst bænum kostnaðarsöm vegna hægrar atvinnuuppbyggingar. Bærinn þurfi að endursemja um tímasetningar og ná hraðari uppgreiðslu lána, auk þess að leita leiða til að draga úr gríðarlegum kostnaði af fjárhagsaðstoð. Það sé best gert með atvinnu fyrir þann hóp.