Avion Group, fyrir hönd dótturfélags síns, Eimskip Atlas Canada, tilkynnir að formlegt yfirtökutilboð hefur verið sent til allra hluthafa Atlas Cold Storage Income Trust. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun.

Skilmálar tilboðsins koma fram í tilkynningu sem birt var þann 3. ágúst síðastliðinn. Tilboðið stendur til klukkan 8:00 að Toronto tíma, föstudaginn 22. september 2006.

Tilkynningin frá 3. ágúst:

Avion Group fyrir hönd nýstofnaðs dótturfélags, Eimskip Atlas Canada, hyggst gera formlegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Atlas Cold Storage Incom Trust (ACSIT). Hljóðar tilboðið upp á 574 milljónir kanadadollara. Félagið er skráð í Kauphöllinni í Toronto í Kanada (TSX). Auðkenni félagsins er FZR.UN.

Eimskip Atlas Canada hefur gert hluthafasamkomulag við tvo stóra hluthafa ACSIT, Avion Group og KingStreet. Avion Group hefur þegar eignast 9,5% hlutafjár í félaginu og KingStreet ræður yfir 4,4% af hlutafé í ACSIT. Samtals ráða þessir hluhafar nú yfir 13,9% hlutafjár í félaginu.

Gengið hefur verið frá fjármögnun yfirtökunnar að fullu og koma Royal Bank of Canada (RBC Capital Markets) og Canadian Imperial Banking Corporation (CIBC World Markets) til með að fjármagna tilboðið. Að öðru leyti er tilboðið háð hefðbundnum skilyrðum, sem eru m.a. að meira en 66 2/3% útistandandi hluta fáist keyptir og öll tilskylin leyfi sem Avion Group telur nauðsynleg fáist. Komi til yfirtökunnar er hún háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum og Kanada.

Atlas Cold Storage sem er í 100% eigu ACSIT rekur 53 frysti- og kæligeymslur í Norður Ameríku. Atlas býður upp á alhliða geymslu á matvælum fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og birgja í matvælaiðnaði í Norður Ameríku.

Tilboð Avion Group hljómar upp á CAD 7,0 fyrir hvern hlut í félaginu. Heildarvirði félagsins (enterprise value) er um CAD 574 milljónir eða rúmlega ISK 37 milljarðar.

Velta Atlas Cold Storage árið 2005 var um 470 milljónir CAD (rúmlega 30 milljarðar króna) og EBITDA 55 milljónir CAD (rúmlega 3,5 milljarðar króna). Atlas Cold Storage, rekur 53 frystigeymslur á 49 stöðum víðsvegar í Norður-Ameríku. Fjórtán af þessum geymslum eru leigðar af félaginu en 39 eru í eigu Atlas Cold Storage. Heildareignir Atlas eru bókfærðar á sjötta hundrað milljónir CAD og engin viðskiptavild er í bókum félagsins.

Gangi þessi kaup eftir nánast tvöfaldast velta Eimskips og verður um sjötíu milljarðar íslenskra króna á ársgrundvelli.