Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands hefur tilnefnt Andrew Bailey sem næsta bankastjóra Englandsbanka, seðlabanka Bretlands. Ráðuneytið greindi frá þessu fyrr í morgun.

Bailey sem er sextugur að aldri mun verða 121. í röð bankastjóra bankans. Hann hefur verið forstjóri breska fjármálaeftirlitsins frá árinu 2016 en þar á undan var hann aðstoðarbankastjóri Englandsbanka frá 2013-2016. Samkvæmt BBC þarf tilnefning Bailey ekki að koma mikið á óvart enda hefur hann starfað lengst af hjá Englandsbanka en hann hóf þar störf árið 1985.

Bailey tekur við starfinu þann 31. janúar næstkomandi en hann tekur við af Mark Carney sem gegnt hefur starfinu frá árinu 2013. Þess má geta að líkt seðlabankastjórum bæði Bandaríkjanna og Evrópu er Bailey ekki hagfræðimenntaður heldur er hann með doktorsgráðu í sagnfræði frá Cambridge.