Aukin hætta á verðhjöðnun og mikið atvinnuleysi í Bandaríkjunum eru helstu ástæður þess að seðlabankinn þar í landi ákvað að kaupa skuldabréf á markaði fyrir 600 milljarða dala næsta hálfa árið. Þetta kom fram í máli Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í viðtali í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur í gær.

Bernanke sagði hagkerfið afar nærri verðhjöðnun. Því hafi verið ákveðið að grípa til aðgerða og hættan á veðrhjöðnun nú minni en áður. Tilætlaður árangur skuldabréfakaupanna er að koma efnahagslífinu úr þeirri lægð sem ríkt hefur.

Aðspurður um þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa vegna innspýtingar stjórnvalda sagði seðlabankastjórinn að líta þyrfti til þeirra áhættu sem fylgi því að aðhafast ekki. Hann sagði að áhyggjur af verðbólguskoti of miklar. Bankinn telji að þær áhyggjur séu ekki á rökum reistar. Ef verðbólga myndi aukast hratt gæti bankinn hækkað stýrivexti á 15 mínútum, sagði Bernanke.